Gatsby opnar Cannes

Nýjasta mynd leikstjórans Baz Luhrmann, The Great Gatsbyverður opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í vor samkvæmt yfirlýsingu frá forsvarsmönnum hátíðarinnar.

Upphaflega stóð til að frumsýna myndina í þrívídd í desember sl., en henni var síðan frestað fram á sumar.  Spurðu ýmsir sig að því hvort það væri vegna þess að menn hafi ekki treyst henni inn í Óskarskapphlaupið, en nú má segja að hún sé í staðinn komin í kapphlaupið fyrir Óskarinn 2014, ef allt fer vel.

Myndin verður sem sagt frumsýnd þann 15. maí, en Hollywoodmyndir eru gjarnan opnunarmyndir hátíðarinnar. Sem dæmi voru Midnight in Paris eftir Woody Allen, Hrói höttur eftir Sir Ridley Scott og teiknimyndin Up opnunarmyndir hátíðarinnar á sínum tíma.

Myndin mun ekki keppa til verðlauna á hátíðinni.

The Great Gatsby verður önnur þrívíddarmyndin til að verða sýnd á Cannes hátíðinni, en sú fyrsta var fyrrnefnd Up eftir Pete Docter.

Það sem er skrýtið í þessu öllu saman er að myndin verður frumsýnd þann 10. maí í Bandaríkjunum, fimm dögum áður en Cannes hátíðin byrjar, en yfirleitt hefur Cannes hátíðin hafnað því að sýna myndir sem hafa verið frumsýndar annars staðar áður.

Formaður dómnefndar kvikmyndahátíðarinnar í Cannes verður Steven Spielberg, en hátíðin stendur til 26. maí.