Tilnefningarnar skoðaðar – Besta íslenska mynd

Tilnefningarnar fyrir hvern flokk Kvikmyndaverðlauna Mynda mánaðarins og Kvikmyndir.is verða skoðaðar nánar næstu daga, einn flokk í einu, til að hjálpa lesendum að glöggva sig á hverjum flokki fyrir sig. Hér verða tilnefningarnar fyrir bestu íslensku myndina skoðaðar.

Það hefur sjaldan verið jafn mikið úrval af íslenskum myndum eins og 2010, en það komu allavega 16 slíkar, bæði heimildarmyndir og leiknar, í fullri lengd út á árinu. Þær fimm sem komust í gegnum nálaraugað eru (í stafrófsröð):

Brim
Hér sameinuðust Árni Ólafur Ásgeirsson, leikstjóri Blóðbanda, sem hlaut mikið lof fyrir nokkrum árum, og hópur nokkurra virtustu og frægustu leikara landsins í kröftugu drama úti á rúmsjó, þar sem áhöfn nokkur þarf að kljást við nýjan meðlim og sjálfsmorð annars stuttu áður en hún lendir sjálf í miklum sjávarháska.

Kóngavegur
Vesturports-leikhópurinn, með nokkrum skemmtilegum viðbótum (eins og Inglourious Basterds-leikaranum Daniel Bruhl og grínaranum geðþekka Sigga Sigurjóns), lék aftur undir stjórn Valdísar Óskarsdóttur (Sveitabrúðkaup) í mynd sem gerist í uppskálduðu hjólhýsahverfi þegar týndi sonurinn snýr heim, en fær ekki þær viðtökur sem hann bjóst við. Mörgum þótti blandan af drama og húmor afar vel heppnuð, auk þess sem leikurinn var fyrsta flokks að venju.

Mamma Gógó
Friðrik Þór sneri aftur með stæl með Mömmu Gógó, mynd sem gerir (að sögn) upp tímabilið í lífi hans sjálfs stuttu eftir að Börn náttúrunnar var frumsýnd. Aðalpersónan er leikstjóri sem þarf að finna leið til að forðast gjaldþrot á sama tíma og móðir hans greinist með Alzheimer. Þessi mynd er af flestum talin hans besta í áraraðir.

Órói
Hér er komin mynd sem kom aldeilis á óvart þegar hún var frumsýnd. Leikhópurinn var að mestu skipaður óreyndum unglingum og leikstjórinn hafði aldrei gert kvikmynd í fullri lengd, en það sem birtist áhorfendum var frábærlega leikin og vel gerð kvikmynd sem náði að grípa söguefni sitt föstum tökum og verða ein af betri unglingamyndum sem gerðar hafa verið á Íslandi.

Sumarlandið
Hér er önnur tiltölulega óvænt mynd á lista, þar sem hinn óþekkti Grímur Hákonarson leikstýrir hinum vanmetnu Kjartani Guðjónssyni og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur í skemmtilegri mynd sem fjallar um eitt af aðalhjátrúarefnum Íslendinga; álfum og steinunum sem þeir búa í.