Margar íslenskar myndir á RIFF

Það eru ekki bara alþjóðlegar myndir úr hinum ýmsu hornum heimsins sem verða sýndar á RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, sem hefst þann 23. september nk. heldur verða á hátíðinni sýndar fjölmargar íslenskar myndir, stuttmyndir, heimildamyndir og kvikmyndir í fullri lengd. Þar af verður ein kvikmynd í fullri lengd frumsýnd, sem er myndin Brim eftir Árna Ólaf Ásgeirsson.

Hér að neðan er plakat myndarinnar:

Um Brim segir í fréttatilkynningu frá RIFF: „Áhöfn línubátsins Brim RE 29 er orðin samdauna síendurteknum vikulöngum túrum til sjós. Áhöfnin hefur samanstaðið af sömu mönnunum lengur en nokkur þeirra kærir sig um að muna. Fátt kemur lengur á óvart og rútínan er allsráðandi.
Nótt eina vakna mennirnir upp við vondan draum þegar einn tryggasti hásetinn tekur sitt eigið líf úti á rúmsjó. Til að fylla spor hans er ung kona ráðin í næsta túr. Vera hennar um borð berskjaldar þá bresti sem myndast hafa í það brothætta jafnvægi sem ríkti. Ágreiningur milli áhafnarmeðlima sem í fyrstu sýnast smáir byrja að vinda uppá sig og persónulegir hlutir sem best væru geymdir í landi líta dagsins ljós. Spennan stigmagnast og þegar fátt virðist vera því til fyrirstöðu að upp úr sjóði gefur vélin sig og bátinn rekur stjórnlaust í átt að stormi.“

Hér að neðan er fréttatilkynning RIFF í heild sinni, en ljóst er af henni að mikið er af spennandi íslensku efni á hátíðinni:

„RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, hefst eftir rétt rúma viku, hinn 23. september næstkomandi. Hátíðin hefur alltaf lagt mikið upp úr þátttöku íslenskra kvikmyndagerðarmanna í dagskrá sinni, og í ár verða sýndar fjölmargar íslenskar stuttmyndir, heimildarmyndir og kvikmyndir í fullri lengd.

Sextán nýjar íslenskar stuttmyndir verða frumsýndar í þremur hollum, og kennir þar ýmissa grasa. Á meðal mynda má nefna nýjustu myndina eftir Ísold Uggadóttur, Clean, og myndina Knowledgy eftir Hrefnu Hagalín og Báru Kristínu sem skartar sjálfum Leo Fitzpatrick úr Kids í aðalhlutverkinu. Þá má ekki gleyma Life And Death Of Henry Darger eftir Bertrand Mandico, sem er fyrsta íslenska stuttmyndin sem sýnd er á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Myndin fjallar um mann sem ferðast um Ísland til að komast að því hversu langt hann á eftir ólifað.

Auk stuttmyndanna verða fimm nýjar íslenskar myndir í fullri lengd frumsýndar á hátíðinni. Þær eru:

Brim
Árni Ólafur Ásgeirsson
2010 – 95mín.

Áhöfn línubátsins Brim RE 29 er orðin samdauna síendurteknum vikulöngum túrum til sjós. Áhöfnin hefur samanstaðið af sömu mönnunum lengur en nokkur þeirra kærir sig um að muna. Fátt kemur lengur á óvart og rútínan er allsráðandi.
Nótt eina vakna mennirnir upp við vondan draum þegar einn tryggasti hásetinn tekur sitt eigið líf úti á rúmsjó. Til að fylla spor hans er ung kona ráðin í næsta túr. Vera hennar um borð berskjaldar þá bresti sem myndast hafa í það brothætta jafnvægi sem ríkti. Ágreiningur milli áhafnarmeðlima sem í fyrstu sýnast smáir byrja að vinda uppá sig og persónulegir hlutir sem best væru geymdir í landi líta dagsins ljós. Spennan stigmagnast og þegar fátt virðist vera því til fyrirstöðu að upp úr sjóði gefur vélin sig og bátinn rekur stjórnlaust í átt að stormi.

Uppistandsstelpur
Áslaug Einarsdóttir
2009 – 65 mín.

Uppistandsstelpur fjallar um ellefu konur sem finnst vanta konur í uppistand á Íslandi. Þær ákveða að stofna sjálfar uppistandshóp en nær engin þeirra hefur stigið á grínsviðið áður. Stelpurnar eru úr ýmsum áttum, anarkistar og magadansmeyjar, lesbískir doktorsnemar og húsmæður í Vogunum. En eru þær fyndnar? Fylgst er með sorgum þeirra og sigrum, drama og djóki.

Ísland Úganda
Garðar Stefánsson, Rúnar Ingi Einarsson
2009 – 33 mín.

Ísland og Úganda eru tvær fyrrverandi nýlenduþjóðir Evrópuríkja sem fengu sjálfstæði um svipað leyti. Í byrjun var útlitið bjart hjá báðum þjóðum en vegna spillingar, óstjórnar og stríðsreksturs heltist Úganda úr lestinni og er í dag flokkað með fátækustu löndum heims. Í myndinni er líf ungs fólks í löndunum borið saman.

Höllin
Héðinn Halldórsson
2010 – 52 mín.

Heimildamyndin Höllin fangar andrúmsloftið í einni af þekktari byggingum Reykjavíkur, Sundhöll Reykjavíkur, sem hefur í áratugi verið athvarf eldri borgara sem búa í nágrenninu. Vegna stórs hóps tryggra fastagesta og hás starfsaldurs starfsmanna Hallarinnar, eru skilin milli gesta og starfsmanna óskýr. Myndin er heimild um tíma og fólk sem brátt nýtur ekki lengur við. Hún gefur áhorfandanum líka þá tilfinningu að tíminn í Höllinni standi kyrr, að þar sé annar heimur. Myndin er því saga um venjur og endurtekningu. Sögumenn okkar, starfsfólk og gestir, eru sál hússins og myndin sjálf er óður til Hallarinnar og þess fólks sem á Höllina fyrir griðastað. Áhorfandinn kynnist fólkinu, sögum þess og sýn á lífið, og af hverju það sækir Höllina. Sagan er knúin áfram af persónunum sjálfum sem við hittum fyrir þegar við föngum hvunndaginn í Höllinni.

Kraftur – síðasti spretturinn
Árni Gunnarsson, Steingrímur Karlsson, Þorvaldur Björgúlfsson
2009 – 46 mín.

Myndin fjallar um hestinn Kraft og knapann Þórarin Eymundsson (Tóta). Þeir eru miklir félagar og sigursælt par á keppnisvöllum á Íslandi. Þeim stendur til boða að taka þátt í Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi árið 2007 og Tóti þarf að taka erfiðustu ákvöðunina á ferlinum því Kraftur kemur ekki aftur fari hann út.

Auk þessara mynda verða þrjár íslenskar myndir sem áður hafa verði sýndar á dagskrá hátíðarinnar. Þetta eru Desember eftir Hilmar Oddsson, Mamma Gógó eftir Friðrik Þór Friðriksson og Kóngavegur eftir Valdísi Óskarsdóttur. Þeir sem misstu af þeim í kvikmyndahúsum á sínum tíma fá því annað tækifæri til að sjá þær á RIFF.“

Stikk: