Larson er Captain Marvel – Fyrsta kvenkyns aðalhetja

Ein stærsta Marvel fréttin frá Comic-Con hátíðinni um nýliðna helgi var sú að Óskarsverðlaunaleikkonan Brie Larson muni leika Carol Denvers í myndinni Captain Marvel, og verða þar með fyrsta kvenkyns aðalhetja í Marvel mynd.

Sömuleiðis var staðfestur orðrómur, um að Emily Carmichel myndi leikstýra myndinni.

brie larson

Kevin Feige, forstjóri Marvel studios, sagði á hátíðinni að Captain Marvel hafi upphaflega verið hluti af handriti Avengers: Age of Ultron, en ákveðið hefði verið að sleppa henni á endanum því þeir hefðu heldur viljað kynna hana til leiks í sérstakri mynd áður.  Leikstjóri Avengers: Infinity War, Joe Russo og Anthony Russo, sögðu í síðasta mánuði að Captain Marvel yrði hluti af þeirri mynd, en tökur hennar hefjast í nóvember nk.  Óvíst er hvort að Larson muni leika í þeirri mynd, en ekki var amk. sagt frá því um helgina.

Nicole Perlman (Guardians of the Galaxy) og Meg LeFauve (Inside Out) eru að skrifa handrit Captain Marvel, en lítið er vitað um söguþráðinn enn.

Caron Danvers, öðru nafni Captain Marvel, kom fyrst fram í Marvel teiknimyndasögum árið 1968. Hún var upphaflega öryggisstjóri í flughernum sem breytist í Captain Marvel, eftir sprengingu þar sem Kree tækni kom til sögunnar. Á meðal eiginleika Captain Marvel eru ofurmannlegur styrkur og hæfileiki til að fljúga, eftir að erfðaefni hennar blandaðist við Kree geimveru.

Við sjáum Larson næst í Wiener-Dog, og Free Fire. Þá leikur hún í mynd sem margir bíða eftir, Kong: Skull Island, sem kemur í bíó 10. mars árið 2017.

Hér fyrir neðan má sjá þegar Larson tilkynnti á Twitter að hún væri orðin Captain Marvel: