Thor vinsælastur, en Brúðarmeyjar óvænt í öðru sæti

Thor gnæfir enn yfir aðrar myndir í bandarískum bíóheimi, en myndin um þessa ofurhetju, sem byggð er á Þór hinum norræna guði, situr eftir helgina í efsta sæti aðsóknarlistans vestra, aðra vikuna í röð. Í öðru sæti sitja brúðarmeyjarnar í myndinni Bridesmaids, sem er betri árangur en menn gerðu ráð fyrir með þá mynd.
34,5 milljónir dala komu inn í tekjur af Thor um helgina, en brúðarmeyjarnar höluðu inn 24,4 milljónir.
Framleiðendur Bridesmaids höfðu búist við að fá inn 15 milljónir dala fyrir myndina á opnunarhelginni, þannig að menn þar á bæ hafa ástæðu til að kætast. Myndin kostaði 32,5 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu, og er framleidd af gamanmyndatröllinu Judd Apatow.
Í myndinni leika þær Kristen Wiig og Maya Rudolph aðalhlutverkin, en myndin þykir óvenjuleg fyrir myndir sem gíraðar eru inn á konur sem markhóp – þar sem talsvert er um klúr atriði, að því er segir í frétt frá Reuters.

Það kom líka á daginn að það voru ekki bara konur sem mættu í bíó, heldur kom talsvert af körlum einnig, samkvæmt tölum að vestan. Myndin fjallar í stuttu máli um það þegar reynir á vinskap hjá hópi brúðarmeyja í aðdraganda brúðkaups sameiginlegrar vinkonu þeirra.
Bílaspennutryllirinn Fast Five rakaði saman 19,5 milljónum dala fyrir framleiðendur sína, og lenti í þriðja sæti, en í fjórða sæti varð spennumyndin Priest, sem olli vonbrigðum með 14,5 milljónir dala í aðgangseyri yfir frumsýningarhelgina.
„PRIEST 3D gerist í hliðstæðri veröld; heimi þar sem aldalangt stríð milli manna og vampría hefur lagt svo til allt í rúst. Sagan snýst um goðsagnakenndan stríðsprest (Paul Bettany) sem vann mikla sigra í síðasta vampírustríði en býr nú óþekktur meðal annarra kúgaðra manna í afgirtri og niðurníddri borg undir stjórn kirkjunnar.
Þegar frænku hans (Lily Collins) er rænt af morðóðum vampíruhópi, brýtur hann sín heilögu heiti og hefur þráhyggjufulla leit til að finna hana áður en þær gera hana að vampíru. Kærasti frænkunnar (Can Gigandet), byssuglaður fógeti frá sléttunum, slæst í hópinn ásamt fyrrum kvenstríðspresti (Maggie Q) sem býr yfir framandi bardagahæfileikum.
Þau þrjú snúa bökum saman í krossferð gegn nýrri vampíruógn sem kirkjan hefur ekki trú á að sé til staðar.“
Teiknimyndin um páfagaukana í Rio lenti síðan í fimmta sæti á sinni fimmtu viku á lista.