Bauð níu milljarða í þrjá Breaking Bad þætti

Jeffrey Katzenberg, forstjóri DreamWorks Animation, kvikmyndafyrirtækisins sagði á fundi með sjónvarpsstjórum í Cannes að hann hefði fyrir sex vikum síðan boðist til að greiða framleiðendum sjónvarpsþáttanna vinsælu Breaking Bad 75 milljónir Bandaríkjadala, eða rúma níu milljarða íslenskra króna, ef þeir myndu framleiða þrjá þætti til viðbótar við seríuna, sem lauk á dögunum, eða alls 180 mínútur af efni, 25 milljónir dala á þátt.

breaking-bad

Þættirnir áttu að taka upp þráðinn frá því þar sem serían endaði.

„Ég fékk þessa brjáluðu hugmynd. Ég var sjúkur í þættina. Ég vissi ekkert hvernig sagan myndi þróast,“ sagði hann, en hann var aðalræðumaður á Mipcom ráðstefnunni í Cannes.

„Síðasta sería af þáttunum kostaði 3,5 milljónir dala á þátt. Þeir hefðu því getað grætt meira á þessum þremur þáttum en þeir græddu á öllum fimm árunum sem þættirnir voru framleiddir,“ sagði Katzenberg.

Hann sagði að hann hefði ætlað að sýna þetta efni í sex mínútna bútum á netinu á 30 dögum.

„Ég sagði ( þeim ), ég ætla að búa til stærsta pay – per – view sjónvarpsviðburð fyrir frumsaminn sjónvarpsþátt en nokkur hafði áður gert,“ útskýrði forstjórinn.

Ætlunin var að hans sögn að rukka áhorfendur um 50 – 99 sent á hvern þátt.

Þetta var þó áður en Katzenberg vissi hvernig sagan myndi enda, sem í raun þýddi að hugmyndin var andvana fædd.

 

Stikk: