Spielberg hættur við American Sniper

Steven Spielberg er hættur við að leikstýra myndinni American Sniper með Bradley Cooper í aðalhlutverki.

spielberg

Samkvæmt vefsíðunni The Wrap voru Spielberg og kvikmyndaverið Warner Bros. ósammála um hversu miklum pening ætti að eyða í myndina og ákvað leikstjórinn að hverfa á braut.

Þrátt fyrir það ætlar Cooper áfram að leika aðalhlutverkið og taka þátt í framleiðslu myndarinnar. Fyrirtæki Spielberg, Dreamworks, mun ekki lengur taka þátt í fjármögnun hennar.

Spielberg leikstýrði síðast Lincoln. Óvíst er hvað hann tekur sér næst fyrir hendur. Dreamworks mun vera nálægt því að öðlast réttinn til að endurgera The Grapes of Wrath og hugsanlega mun Spielberg leikstýra henni. Hann hefur einnig sýnt áhuga á myndinni Robopocalypse.

American Sniper er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um leyniskyttuna Chris Kyle sem hefur drepið yfir 150 manneskjur, sem er það mesta í sögu bandaríska hersins.