Ekki slæmt hjá slæmum strákum

Það er svo sannarlega ekki slæmt að ná því að vera á toppi íslenska bíóaðsóknarlistans tvær vikur í röð, en það er einmitt það sem Slæmir strákar að eilífu, eða Bad Boys for Life, eins og kvikmyndin heitir á frummálinu, hefur nú tekist.

Mikið stuð hjá félögunum.

Annað og þriðja sæti listans er einnig óbreytt, en þar sjáum við stríðsmyndina verðlaunuðu 1917 í öðru sætinu, og í þriðja sætinu er það enginn annar en Dagfinnur dýralæknir, að ræða við dýrin.

Sjö myndir koma nýjar inn á listann þessa vikuna. Little Woman fer rakleitt í fjórða sæti listans, Arctic Dogs, eða Heimskautahundar, fer beint í sjöunda sætið, Bombshell situr nú í níunda sætinu og Clint Eastwood myndin Richard Jewell er í því tólfta. Þá er pólska myndin Jak Zostalem Gangsterem. Historia Prawdziwa mætt í þrettánda sæti listans og franska myndin Fagra veröld í það fjórtánda. Í átjánda sætinu situr svo önnur frönsk kvikmynd, Portrait of a Lady on Fire.

Sjáðu listann í heild sinni hér fyrir neðan: