Bubba Ho-Tep viðhafnarútgáfa á Blu

Aldraður Elvis Presley og þeldökkur öldungur sem segist vera John F. Kennedy berjast við úrilla múmíu sem sýgur sálina úr vistmönnum á elliheimilinu Shady Rest Home í Suðurríkjum Bandaríkjanna.

Bubba6

Bandaríska útgáfufyrirtækið Scream Factory gefur út hina óviðjafnanlegu „Bubba Ho-Tep“ (2002) á Blu-ray í nóvember og það er svo sannarlega óhætt að mæla með þessari og vekja athygli á henni. Gerð fyrir mjög lítinn pening og byggð á smásögu eftir Joe R. Lansdale; „Bubba Ho-Tep“ er vægast sagt með mjög frumlegan og fáránlegan söguþráð en orðspor myndarinnar hefur bara aukist í gegnum árin og hún á sér mjög dyggan hóp unnenda.

Elvis Presley (Bruce Campbell) dó ekki árið 1977 á heimili sínu Graceland heldur eftirherma að nafni Sebastian Haff. Sökum slyss og hrakandi heilsu visnar nú Kóngurinn upp hægt og bítandi á hrörlegu elliheimili þar sem hann eyðir tímanum í að rifja upp fortíðina og glötuð tækifæri og fylgjast með vistmönnum sínum kveðja jarðvistina einn á fætur öðrum. Einn af þeim, Jack (Ossie Davis), þykist fullviss um að hann sé fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og hann hafi verið litaður svartur og falinn frá umheiminum af leyniþjónustunni.

Þessir kumpánar taka heldur betur við sér þegar þeir átta sig á því að allir á heimilinu eru í stórhættu vegna aldagamallar múmíu sem myrðir vistmenn á nóttinni. Kóngurinn og Jack taka höndum saman til að berjast gegn óvættinum.

Bubba2

Oft er mikla visku og nærgætni að finna í jafnvel hinni mestu dauðans dellu og það á við um „Bubba Ho-Tep“. Elvis er mjög þjáður maður sem harmar hvernig frægðin fór með hann, hvernig hann missti frá sér Priscillu og Lisu Marie og hvað allt umstangið færði honum litla hamingju. Á elliheimilinu sér hann hve einmanalegur dauðinn getur verið og sér í lagi hvernig hann læðist hægt að þeim sem liggja bara og stara út í loftið og bíða hans, jafnvel með eftirvæntingu. Ljósmyndir í ramma sem voru þeim látnu mikilvægar og mikil afrek eins og heiðursorður enda bara í ruslatunnunni við hliðina á rúminu þegar eigur eru sóttar af þeim sem ber skylda til þess sökum fjölskyldutengsla. Kóngurinn er bara skugginn af sjálfum sér og bíður spenntur eftir manninum með ljáinn. Þannig að það er eins gott að morðóða múmían mætir á svæðið og gefur honum ástæðu til að klæðast samfestingnum og rifja upp karate hreyfingarnar ásamt fyrrverandi forsetanum.

 

Bubba3

Það er stutt í gamanið og hryllinginn og „Bubba Ho-Tep“ er svo sannarlega meinfyndin og nokkuð hrollvekjandi á köflum. Bruce Campbell er hvað þekktastur fyrir að leika Ash í „Evil Dead“ þríleiknum (1981-1992) og er einn dáðasti B-mynda leikarinn í bransanum og hann sýnir sannkallaðan stórleik sem Elvis. Ossie Davis er einnig mjög góður sem Jack og báðir leikararnir taka hlutverk sín alvarlega og sýna umfjöllunarefninu virðingu en lakari menn hefðu eflaust ofleikið verulega og breytt þ.a.l. allri ásýnd myndarinnar.

„Bubba Ho-Tep“ hefur verið gefin út á Blu-ray í flottum útgáfum bæði í Bretlandi og Frakklandi. Breska útgáfan er ekki fáanleg lengur nema á uppsprengdum verðum og því kærkomið að Scream Factory gefi hana út. Ekki er búið að ljóstra upp hvað verður meðal aukaefnis en búast má við öllu því sem diskurinn innihélt en þar var að finna heimildarmyndir, yfirlestra, eydd atriði, tónlistarmyndband og viðtöl við leikara og leikstjórann Don Coscarelli, sem er hvað þekktastur fyrir „Phantasm“ myndirnar (1979-1998) sem eru fjórar talsins. Mjög líklega mun Scream Factory bæta einhverju fleira aukaefni við.

 

Bubba4

Að lokum má geta þess að engin tónlist eftir Elvis heyrist í myndinni en það hefði keyrt framleiðslukostnaðinn upp um rúmlega helming hefði lag eftir kónginn verið notað.

Sýnishornið úr „Bubba Ho-Tep“