Vilja Ford í Blade Runner 2

Bandaríski leikarinn Harrison Ford hefur verið beðinn um að taka að sér aðahlutverkið í framhaldi kvikmyndarinnar Blade Runner eftir Ridley Scott.

Það var framleiðslufyrirtækið Alcon Entertainment sem sagði frá þessu í fréttatilkynningu, samkvæmt frétt á vefsíðu The Wrap.

star-wars-harrison-ford-han-solo

 

Ford, sem er 71 árs gamall, lék lögregluþjóninn Rick Deckard í upphaflegu Blade Runner frá árinu 1982, en myndin var byggð á vísindaskáldsögu Philip K Dick og gerðist í niðurníddri Los Angeles borg árið 2019.

Myndin hlaut blendnar viðtökur gagnrýnenda, og floppaði í miðasölunni. Myndin er hinsvegar fyrir löngu orðin sígild cult mynd.

Scott hefur talað um mögulegt framhald í mörg ár, en ekki hefur verið vitað fyrr en nú að hann vildi fá Ford til að snúa aftur. “Okkur sýnist sem þeir Hampton Fancher og Michael Green hafi ásamt Ridley Scott búið til magnað framhald einnar bestu myndar allra tíma,” sagði framkvæmdastjóri hjá Alcon í yfirlýsingu.

“Það yrði heiður, og við erum vongóðir, ef Harrison yrði hluti af verkefninu.”

Blade Runner 2 mun gerast nokkrum áratugum eftir atburði fyrri myndarinnar, en með önnur helstu hlutverk í henni fóru Daryl Hannah og Rutger Hauer.

Ford hefur annars í mörg horn að líta, og var nú síðast tilkynntur í hlutverk Han Solo í Star Wars: Episode VII sem verður frumsýnd í desember á næsta ári.