Hætti Aronofsky vegna afskiptasemi?

Eins og kom fram í gær hefur leikstjórinn Darren Aronofsky dregið sig úr framleiðslu á myndinni The Wolverine. Myndin, sem er framhald af X-Men Origins: Wolverine, mun sem áður skarta Hugh Jackman í aðalhlutverkinu, en aðdáendur persónunnar voru almennt ánægðir með leikstjóravalið.

Í yfirlýsingu varðandi málið lýsti Aronofsky því að ástæðan fyrir brottför sinni væri sú að til að vinna við myndina þyrfti hann að vera frá fjölskyldu sinni í heilt ár. En nú segir síðan CinemaBlend að svo er ekki. Samkvæmt síðunni átti leikstjórinn í deilum við 20th Century Fox, kvikmyndaverið bak við Wolverine, en Aronofsky vildi fulla stjórn á verkefninu. Fox hafa getið sér nafn fyrir að sýna mikla afskiptasemi þegar kemur að myndum sínum og neituðu þeir að leyfa leikstjóranum að ráða ferðinni.

Eins og margir vita var Aronofsky tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrr á árinu fyrir mynd sína Black Swan og notaði hann það til að sýna kvikmyndaverinu að honum væri treystandi með verkefnið. 20th Century Fox neituðu enn og aftur að gefa Aronofsky stjórntaumana en buðu honum þess í stað hærri laun. Aronofsky hefur þá ákveðið að yfirgefa framleiðsluna.

Þetta eru að sjálfsögðu sögusagnir eins og er, en verður að teljast ansi trúverðugt með tilliti til sögu 20th Century Fox.

– Bjarki Dagur