Bandaríkin: Tangled hirðir toppsætið af Harry

Disney-teiknimyndin Tangled hirti toppsætið af sjöundu Harry Potter-myndinni á sinni annarri sýningarhelgi, en um síðustu helgi varð hún að sætta sig við annað sætið. Disneyævintýrið fékk um 21,5 milljónir dollara í tekjur um helgina á meðan Harry þurfti að sætta sig við 16,7 milljónir og hrap um heil 65 prósent í tekjum frá síðustu helgi.

Aðsókn í bíóhús í Bandaríkjunum olli í heild nokkrum vonbrigðum um nýliðna helgi, þar sem toppmyndir síðustu helgar, Tangled og Harry Potter and the Deathly Hallows Part I, féllu báðar nokkuð duglega í aðsókn en héldu toppsætunum samt næsta örugglega. Burlesque, Unstoppable og Love and Other Drugs voru í 3.-5. sæti með í kringum 6 milljónir dollara í tekjur hver. Hvað Harry varðar er nú allt í einu talinn vafi á því að þessi sjöunda mynd nái að jafna tekjur síðustu mynda á undan, sem kemur á óvart miðað við þá spennu sem hefur ríkt fyrir lokakaflanum, jafnvel eftir að tilkynnt var að honum yrði skipt í tvennt.

Ein mynd var frumsýnd á landsvísu um helgina, vestra- og bardagamyndin The Warrior’s Way. Er skemmst frá því að segja að hún floppaði allhressilega, náði aðeins níunda sætinu með rétt um 3 milljónir dollara í tekjur. Nýjasta mynd Darrens Aronofsky, ballett-þrillerinn (já, þið lásuð rétt) Black Swan, var þó bjartur punktur á topp 20-listanum. Hún var sýnd í 18 kvikmyndahúsum og skellti sér alla leið í 13. sæti, á milli 127 Hours (433 bíóhús) og Fair Game (436 bíóhús).

Þessi slaka helgi fylgdi í kjölfar frétta um að nóvembermánuður hefði verið sá lélegasti í nokkur ár, og sé litið á áhorfendafjölda hafa ekki færri farið í bíó í nóvember í Bandaríkjunum síðan 1997. Því vonast iðnaðurinn í heild sinni eftir því að desember dragi fleiri í bíó og að myndir eins og Narníumyndin The Voyage of the Dawn Treader, fjölskyldugrínið Little Fockers, spennumyndin The Tourist og sci-fi brjálæðið TRON Legacy nái helst allar að slá í gegn. Hvort það gengur eftir verður hins vegar að koma í ljós…

-Erlingur Grétar