Harry Potter og draugahúsið

Ég er nú ansi hræddur um að Daniel Radcliffe þurfi að sýna mér örlitla þolinmæði ef ég gæti átt erfitt með að kaupa hann sem einhvern annan karakter en Harry Potter. Elsku drengurinn gerir aðdáunarverða og heiðarlega tilraun til þess að prófa nýja hluti eftir að epíska serían um galdrastrákinn kláraðist. En þegar einhver leikur titilhlutverkið í brelludrifnum stórmyndum sem byggðar eru á vinsælustu bókaseríu heimsins er það að biðja um ansi mikið ef áhorfandinn á að gleyma því í smástund – og hvað þá þegar 8 svoleiðis myndir eru að baki.

Heimurinn fylgdist með Radcliffe þroskast úr barni í ungan mann í gegnum þessar sögur, ásamt því að sjá hann stanslaust reyna að betrumbæta leik sinn (sem heppnaðist, á endanum). Þess vegna er það rosalegt álag að hoppa inn í allt, allt öðruvísi bíómynd heldur en Harry Potter-mynd og ætlast til að hún renni eðlilega án þess að maður spyrji sig hvar töfrasprotinn hans er. Þetta ætti ekki að vera svo erfið skipting fyrir svona reyndan ungan mann og vegna þess að The Woman in Black á nánast ekkert sameiginlegt með Potter nema aðalleikarann, draugagang og gamaldags búninga, ætti skiptingin að vera auðveldari. En vegna þess að þetta er svo öðruvísi virðist eitthvað ekki alveg passa fyrir þennan leikara, en það gæti líka bara vel verið að hann væri ekki alveg rétti maðurinn í þetta hlutverk.

Til að geta fjallað um myndina þarf að fjalla um Radcliffe og til allrar hamingju stendur drengurinn sig virkilega vel. Hann leggur sig allan fram og kreistir eins miklar tilfinningar út úr svipbrigðum sínum og andlit hans leyfir (hann hefur líka alltaf verið með mjög spes andlit þegar hann er sorgmæddur). Handritið býður að vísu ekki upp á heilmikla fjölbreytni en hlutverkið er sæmilega krefjandi og þá er ég ekki bara að tala um leðjusenuna subbulegu. Radcliffe er mestmegnis labbandi til og frá með alvarlegan undrunarsvip en karakterinn hans er sárþjáður andlega og leyfir það sálinni að stíga aðeins inn í söguna.

Radcliffe ber myndina á öxlum sér (sem hefur sína kosti og galla) en þegar upp er staðið er það hann sem þarf að selja áhorfandanum hræðslutilfinninguna. Ef hún hefði ekki virkað, hefði myndin strax verið ónýt. Tilraunin er glæsileg en þessi drengur er bara ekki rétti maðurinn í hlutverk niðurdregins ekkils sem á fjögurra ára son. Hann er eiginlega á réttum aldri, og hann sleppur í heildina vegna þess að hann reynir sitt besta, en það hefði örugglega verið hægt að finna einhvern eldri og aðeins betri.

Sem betur fer er The Woman in Black ekki hádramatísk karakterstúdía, heldur hefðbundin en óþægilega drungaleg draugasaga af gamla skólanum. Bregðusenur eru notaðar talsvert, og einstaka sinnum með ódýra hættinum, en almennt er andrúmsloftið aðaláherslan og það kann ég að meta. Það lekur enginn frumleiki af handritinu en leikstjórinn bætir það upp með því að halda manni við sætisbrúnina á réttum stöðum. Trixin eru gömul og þreytast stundum en ef maður horfir á myndina við réttar aðstæður (þá meina ég á stórum skjá með allt slökkt og hljóðið hátt) eru fínar líkur á því að maður sitji annaðhvort beinstífur eða í fósturstellingu yfir bestu pörtunum. Seinast þegar ég varð skíthræddur yfir períódumynd, þar sem alvarleg persóna gengur um með kertastjaka á milli herbergja í draugahúsi, var þegar ég sá The Others. Hún var að vísu betri, hugmyndaríkari og talsvert óvæntari. Þessi mynd er svo hefðbundinn að þú gætir púslað saman bútum úr öðrum myndum og fengið út svipaða niðurstöðu, án þess að nota parta úr upprunalegu myndinni sem hún er byggð á. Pælið aðeins í því.

Markhópur myndarinnar verður vel sáttur. Líka ef það eru stelpur þarna úti sem elska að horfa á hrollvekjur í hópum til að geta öskrað saman í kór; þær eiga eftir að missa vitið úr spenningi yfir þessari. Myndin veit hvað hún er að gera og gerir mest allt rétt sem gelgjuhrollvekjur hafa gert rangt. Eins og áður var sagt er sagan ekkert pökkuð af innihaldi en það að myndin skuli ekki vera miklu lengri en 80 mínútur hjálpar helling. Ciarán Hinds, sem hefur áður unnið með Radcliffe, er líka oftast góður (ef við látum eins og Ghost Rider 2 hafi aldrei gerst) og er stórfínn á móti drengnum í hlutverki sem hefði getað breyst í algjöra tímasóun.

Það er eiginlega glæpur gegn afþreyingariðnaðinum að kalla þetta frábæra mynd. Þetta er bara eins og að upplifa draugahús í skemmtigarði á filmu (með búningaþema) og það er margt við hana sem hefði átt að vinna betur og vinna öðruvísi. Ég get vælt um þessa galla og röflað í ábyggilega fimm efnisgreinar í viðbót en þegar öllu er á botninn hvolft nær myndin að gefa manni netta gæsahúð, og þá ekki með of löngu millibili, og heldur áhuga manns með skítsæmilegri klisjusögu, fínum leik og leikstjórn sem sýnir merki um alvörumetnað.


Segjum væg og gjafmild sjöa.