Ferskur vinkill á gamalt form

Sættum okkur við staðreyndirnar. Við erum öll mannleg og vonandi flest með húmor, sem þýðir að ef t.d. karlkyns drengur á háskólaaldri myndi allt í einu öðlast ofurkrafta, þá yrðu þeir fyrst og fremst notaðir í sjálfelskt fjör og prakkaraskap. Ég get til dæmis alveg ímyndað mér það að í svipaðri aðstöðu myndi ég ekki hika við það að grilla aðeins í ókunnugum, monta mig fyrir framan jafnaldra mína og – það sem mikilvægast er – blása upp pilsin á fallegum stelpum. Þarna er komið öflugt merki um að þessi mynd sé svolítið að sækjast eftir ákveðnum trúverðugleika, og hvernig henni er stillt upp er einnig áberandi merki um það.

Stærsta ástæðan fyrir því að ég er orðinn svo rosalega þreyttur á svokallaða „found footage“ forminu er sú að kvikmyndagerðarmönnum tekst voða sjaldan að gera eitthvað ferskt eða frumlegt við hann, enda er önnur ástæðan líka sú að þessi bíó(undir)geiri er einfaldlega alltof einhæfur. Hryllingsmyndir hafa nýtt sér þetta form fullmikið því þetta er mjög hentug (en um leið ódýr) leið til að setja áhorfandann í spor mannsins á bakvið upptökuvélina svo hann sé meira þátttakandi í atburðarásinni. Sömuleiðis er þetta algjör gullnáma fyrir aðstæður til þess að bomba út bregðuatriðum úr öllum áttum án þess að sökkva niður á það plan sem flestar gelgjuhrollvekjur gera. Ég get talið upp með annarri hendi þær myndir sem hafa notað þennan stíl á framúrskarandi máta, en hryllingsmyndir hafa samt bókstaflega dregið þetta form til dauða. Það er líka ástæða af hverju þetta kallast found footage myndir, vegna þess að það eru ofsalega takmarkaðar leiðir til að enda svona myndir.

Chronicle er fyrsta myndin sem ég hef lengi séð sem virðist gera sér grein fyrir því hvað formið er einhæft og þreytt og mótar þess vegna úr því eitthvað sem ég get bæði kallað skemmtilegt og „edgy.“ Á blaði höfum við voða týpíska sögu af þremur ungum vinum sem öðlast einhvers konar ofurkrafta, leika sér óspart með þá í byrjun áður en einn (oftast félagslega bældi) aðilinn byrjar að ganga aðeins of langt með býsna brútal afleiðingum. Strax koma upp í hugann myndir eins og The Craft eða The Surge, nema munurinn er sá að þær eru virkilega, virkilega lélegar.

Kaldhæðnislega er það samt gamli fyrstu persónu stíllinn sem skreytir söguna með talsverðum ferskleika, því myndin finnur bæði ásættanlega ástæðu til þess að nota hann og gerir á sama tíma ýmislegt við hann sem maður hefur ekki séð áður, eða að minnsta kosti ekki mjög oft. Til dæmis með því að skipta stöku sinnum um sjónarhorn. Þess vegna er þetta ekki beinlínis found footage ræma heldur meira saga sem er sögð með því að púsla saman efni frá fleiri en einni kameru.  Þetta er vinkillinn sem gerir myndina góða og ekki dauða í eina mínútu, ásamt auðvitað sterku handriti, traustum leik og fáeinum óvenjulega grimmum senum sem maður finnur ekki í flestum ofurhetjumyndum. Að minnsta kosti ekki í þeim sem kosta mikinn pening.

Sagan fer í mjög myrkar og brjálaðar áttir og það er einmitt það sem heldur athygli manns, ekki síst í þessum snarklikkaða lokaþriðjungi. Fókus myndarinnar virðist sömuleiðis meira liggja í persónusköpuninni, sem er enn og aftur eitthvað sem er undarlega sjaldgæft í mynd af þessari tegund. Vinirnir eru allir vel leiknir og ber Dane DeHaan hiklaust af sem hinn skapstóri Andrew. En það mætti auðvitað segja að hann sé skapstór af eðlilegri ástæðu. Raunsæja þróun hans er það sem skiptir mestu máli, og handritið skýtur beint í mark í atriðunum sem tengjast sambandi hans við foreldra sína.

Það fer reyndar ekki á milli mála, eins og gengur og gerist í svona myndum, að maður neyðist til þess að kyngja nokkrum asnalega hentugum lausnum yfir réttlætingu myndatökuvélanna (til dæmis er heppileg tilviljun mjólkuð úr því að ein mikilvæg aukapersóna er reglulega með vídeóblogg í gangi meðan á sögunni stendur), en maður hættir að nenna að spá í því eftir smátíma, sennilega vegna þess að hristingur á rammanum er ekki nærri því jafnmikill og maður er (því miður) vanur. Einnig hættir maður að nenna að gagnrýna misgóðu tölvubrellurnar, því hasarinn kemur oftast vel út og almennt afraksturinn er varla neitt annað en tilkomumikill miðað við $15 milljón dollara framleiðslukostnað.

Eins klisjukennt og það hljómar, er Chronicle ekki beinlínis fullkomin mynd og miðað við ansi fyrirsjáanlega atburðarás og staðlaða frásagnarformið er ég fyrst og fremst hissa að hún skuli vera svona tussugóð til að byrja með. Örlítið fleiri nýjungar í frásögninni hefðu næstum því gert hana ógleymanlega en hún heldur þér við efnið og er með öllum líkindum eitthvað það óvæntasta kvikindi sem ég hef séð af sinni tegund, sama hvort er verið að ræða um bíógeirann sem hún tilheyrir eða ofurhetjumyndir almennt, ef hægt er að flokka hana þangað.

Enn og aftur kemur einkunn sem ég kalla háu sjöuna mína. Vinsamlegast ekki hrækja á mig.