Sjö vinsælar myndir sem Bill Murray hafnaði

Það er alltaf gaman að velta fyrir sér hvernig fræg kvikmyndahlutverk hefðu getað orðið í meðförum annarra leikara en þeirra sem á endanum tóku þau að sér.

GhostMurray-Thumb

Bill Murray er til dæmis leikari sem er gaman að sjá fyrir sér í ýmsum hlutverkum, en hann er einmitt einn af þeim leikurum í Hollywood sem hefur hafnað mörgum hlutverkum í þekktum myndum.

Í nýrri bók, The Big Bad Book of Bill Murray, skoðar höfundurinn Robert Schnakenberg feril leikarans, og kemur þar meðal inn á verkefni sem hann hafnaði.

Eins og fram kemur í bókinni hafnaði hann í sumum tilfellum hlutverkum, eða missti af þeim,  einfaldlega af því að hann nennti ekki að tékka á skilaboðum á símsvaranum sínum.  ( Murray er ekki með umboðsmann og fær öll tilboð um hlutverk í gegnum 1-800 símaþjónustu sem hann lét setja upp fyrir sig).

Hér eru nokkur af þeim hlutverkum sem Murray hefur staðið til boða í gegnum árin:

Rain Man

Rain man

Samkvæmt handritshöfundi myndarinnar, Barry Morrow, þá var Murray boðið hlutverk hins einhverfa Raymond Babbit í Rain Man. Að lokum fékk Dustin Hoffman hlutverkið, og vann í kjölfarið Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína árið 1989.

Sjálfur hefur Murray verið tilnefndur einu sinni til verðlaunanna, en hann var tilnefndur árið 2003 fyrir leik í aðalhlutverki í Lost in Translation.

Airplane!

aero

Leikstjórar hinnar goðsagnakenndu gamanmyndar Airplane!, þeir Jim Abrahams, David Zucker og Jerry Zucker buðu Murray aðalhlutverkið í myndinni, hlutverk Ted Striker. Samkvæmt bókinni þá hafnaði Murray hlutverkinu ( David Letterman var einnig boðið hlutverkið). Murray sagði síðar að Airplane! hafi verið dæmi um verkefni sem hann hafnaði, þó svo hann hafi vitað að hún myndi slá í gegn.

Bad Santa

bad

Murray var draumaleikari leikstjórans Terry Zwigoff í hlutverk jólasveinsins Willie í Bad Santa. Zwigoff sagði að hann hafi meira að segja fengið munnlegt jáyrði frá Murray. En þegar kom að því að skrifa undir náðist hvergi í Murray.

„Einn framleiðenda myndarinnar sagði mér að hann hefði mikinn áhuga,“ segir Zwigoff. „Ég skildi eftir fjölda skilaboða á símsvaranum hans, en eftir nokkurra vikna bið og engin viðbrögð, þá fórum við aðrar leiðir.“

Hlutverkið fór til Billy Bob Thornton.

Batman

batman

Þó ótrúlegt sé þá, samkvæmt bókinni, var Tim Burton með Murray í huga til að leika Batman á tímabili, í Batmanmyndinni frá árinu 1989. Mel Gibson, Kevin Costner og Pierce Brosnan komu sömuleiðis til greina.

Michael Keaton fékk hlutverkið á endanum.

Getur þú séð Murray fyrir þér í hlutverkinu?

Cape Fear

cape

Þó að Martin Scorsese hafi leikstýrt endurgerðinni á Cape Fear árið 1991, þá var það Steven Spielberg sem átti hugmyndina og ætlaði að leikstýra myndinni upphaflega. Draumaleikari hans í hlutverk fangans fyrrverandi Max Cady, var Murray.

Að lokum hætti Steven Spielberg við að leikstýra myndinni, og Scorsese hafði þá samband við félaga sinn Robert De Niro, en hann fékk Óskarstilnefningu fyrir túlkun sína.

Ógert verkefni Clint Eastwood – gamanmynd úr Seinni heimsstyrjöldinni

trouble-with-curve-clint-eastwood3

Í bókinni segir frá því að snemma á níunda áratug síðustu aldar hafi Murray  viljað gera mynd með Clint Eastwood, eftir að hafa séð hann í myndinni Thunderbolt and Lightfoot frá árinu 1974, þar sem Eastwood lék á móti Jeff Bridges.

„Ég gæti drepið mann í svona myndum,“ sagði Murray einhverntímann. „Ég gæti komist í eina svona. Það er fullt af spennuatriðum. Og skemmtileg tilsvör. Þú færð að segja brandara. Félaginn fær að segja allt það fyndna. Og svo ertu drepinn svo að Clint geti hefnt þín.“

Þegar þeir Murray og Eastwood hittust síðar, þá bauð hann honum hlutverk í gamanmynd sem átti að gerast í Seinni heimsstyröldinni sem hann var með í undirbúningi.  En viðræður þeirra leiddu ekki til neins, þar sem Murray var nýbúinn að leika í Stripes og vildi ekki gera aðra stríðs-gamanmynd.

Þeir Murray og Eastwood hafa enn ekki gert mynd saman.

Raiders of the Lost Ark

aiders

Murray var einn af nokkrum mögulegum leikurum í hlutverk Indiana Jones, þó sjálfsagt eigi einhverjir erfitt með að sjá hann fyrir sér í því hlutverki, rétt eins og í hlutverki Batman.