Síðasta mynd Jóhanns talin á meðal þeirra bestu á Berlinale

Kvikmyndin Last and First Men var nýverið heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín við frábærar viðtökur. Um er að ræða fyrstu kvikmynd Jóhanns Jóhannssonar heitins en hann skrifaði og leikstýrði verkinu auk þess að semja hluta af tónlistinni. 

Jóhann var að leggja lokahönd á kvikmyndina þegar hann lést í febrúar árið 2018, 48 ára að aldri, og var myndin síðar meir kláruð af framleiðendum ZikZak. 

Last and First Men er sögð vera vísindaskáldsaga af óhefðbundnu gerðinni og er verkið byggt á samnefndri sögu eftir Olaf Stapledon. Sögumaður myndarinnar er leikkonan Tilda Swinton en í verkinu er sagt frá síðustu dögum hjá mannkyni framtíðarinnar. Hermt er að myndin sé eins konar „esseyjumynd“.

Samantektarsíðan Metacritic birti lista yfir bestu og verstu kvikmyndir hátíðarinnar í ár og segir þar er vitnað í dóm IndieWire, sem segir að myndin sé „einhver frumlegasta vísindaskáldsögumynd síðari ára; gífurlega minnisstæð, vel unnin og frumleg á alla vegu… Draumakennd blanda af hljóði og myndmáli.“

Vefmiðillinn The Film Stage ausar myndina einnig lofi og þar segir að sé ótvírætt að Jóhann hafi þarna sýnt merki um að vera ósvikinn listamaður á sjónrænu sviði jafnt og í tónlistargeiranum. Gagnrýnandi The Hollywood Reporter fullyrðir að myndin sameini skáldskap og verki í heimildarmyndarstíl með dáleiðandi hætti.

Sýnishorn úr Last and First Men má sjá að neðan.