Ferðastu með Walter Mitty

Fimmta mynd Ben Stillers sem leikstjóra, The Secret Life of Walter Mitty, er nú í öðru sæti yfir vinsælustu myndir í bíó á Íslandi eftir að hafa verið í sýningum í þrjár vikur. Myndin fær 7.6 í einkunn á IMDb, hæsta einkunn sem mynd sem hann leikstýrir hefur fengið. Zoolander fær til samanburðar einungis 6.6 og Tropic Thunder 7.0. Hún fær hinsvegar ekki jafn mikið lof gagnrýnenda, og fær aðeins 48% á Rotten Tomatos.

Eins og Íslendingar vita var stór hluti myndarinnar tekin upp á Íslandi. Ekki fyrsta Hollywood myndin sem gerir það, en í fyrsta sinn síðan Die Another Day var tekin upp hér þá gerist myndin í raun og veru á Íslandi, ólíkt t.d. Prometheus þar sem Ísland er önnur pláneta, Oblivion þar sem Ísland á að vera Bandaríkin eftir að geimverur eyðileggja jörðina, Himalayjafjöll í Batman Begins og svona mætti lengi telja. En í Walter Mitty leikur Ísland ekki aðeins sjálfan sig, heldur líka einmitt Himalayjafjöllin og einnig Grænland.

Nú hafa ferðaþjónustuaðilar loksins tekið við sér og byrjað að bjóða upp á ferðir um tökustaði á Íslandi. Ein ferðin er tileinkuð Walter Mitty, en ferðin hefur verið gagnrýnd fyrir að sleppa algjörlega Seyðisfirði. Ég tók hinsvegar fljótt eftir að mun fleiri tökustöðum var sleppt. Hér ætla ég að fara yfir alla þá tökustaði sem koma fyrir í myndinni og reyna að bera kennsl á staðsetninguna. Við vörum við að sumar myndirnar hér fyrir neðan gætu spillt söguþræðinum fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina.

WalterMitty01

Þetta er ein draumasena Walter Mitty í byrjun myndarinnar. Mér finnst reyndar svolítið líklegt að þetta sé annað hvort tölvugert fjall eða að þetta sé alls ekki á Íslandi. En ég ákvað samt að hafa það með.


WalterMitty02

Þegar Walter Mitty flýgur til Grænlands þá flýgur Air Greenland flugvélin yfir Brandsvog við Djúpavog í rétt augnablik.


WalterMitty03

Svo verður honum litið út um gluggann og sér yfir Álftafjörð.

WalterMitty03_1

Næst sér hann Stykkishólm, sem mun koma meira við sögu síðar. Ísjökunum hefur verið bætt við í Photoshop.

WalterMitty04

Flugvöllurinn í Nuuk er í raun og veru Hornafjarðarflugvöllur hjá Höfn.

WalterMitty05

Walter Mitty keyrir af stað frá flugvellinum, en ég hef ekki áttað mig á hvar þetta er.

WalterMitty06

Hann kemur við í Nuuk og hittir Ólaf Darra á bar. Þetta er að sjálfsögðu Stykkishólmur.

WalterMitty07

Eftir ævintýralega þyrlu og bátsferð, sem var tekin upp fyrir utan Garð er Walter Mitty loksins kominn til Íslands. Fyrsti bærinn sem hann kemur að er Grundafjörður, en þar stelur hann hjóli.

WalterMitty08

Uppfært: Hann hjólar framhjá þurrkhúsi. Þökk sé Guðna og Steinari í athugasemdunum hér fyrir neðan náðist að bera kennsl á að það er við bæinn Berserkseyri á leiðinni frá Grundafirði til Stykkilshólmar.

WalterMitty10

Hann hefur hjólað þvert yfir landið og er kominn undir Vestrahorn í Hornafirði.

WalterMitty11

Svo hjólar hann framhjá þessum sveitabæ.

WalterMitty12

Þegar hann fær símtal frá eHarmony er hann kominn á Nesjavallaveg.

WalterMitty13

Og dettur all svakalega fyrir framan tvær kindur.

WalterMitty14

Hann skilur hjólið eftir og hleypur yfir gömlu Þjórsárbrúnna.

WalterMitty15

Þessa staðsetningu þekki ég ekki.

WalterMitty16

Svo er hann búinn að hlaupa alla leið að skíðaskálanum í Hveradölum þar sem hann hittir þrjá íslenska stráka og fær hjólabretti í skiptum fyrir Stretch Armstrong.

WalterMitty18

Hann hleypur með hjólabrettið upp á Fjarðarheiði.

WalterMitty19

Hann fer á hjólabrettinu niður brekkuna og að Seyðisfirði. Fyrsta ferðin sem er eins og hún er í raunveruleikanum. Seyðisfjörður er í raun og veru fyrir neðan Fjarðarheiði. En Eyjafjallajökull er auðvitað ekki fyrir ofan Seyðisfjörð, sem gýs í þessu atriði.

WalterMitty20

Gunnar Helgason bjargar Walter Mitty með naumindum og skuttlar honum í Borgarnes þar sem bakaríinu hefur verið breytt í Papa John’s veitingastað.

WalterMitty21

Walter Mitty flýgur aftur til Bandaríkjana og flettir upp Himalayafjöllunum. Veit ekki hvaða fjall þetta er. En það á að vera í Himalayjafjöllunum í Afghanistan.

WalterMitty22

Hann fer til Afghanistan. En þetta er í raun Breiðamerkursandur.

WalterMitty23

Svo keyrir hann upp einhvern fjallaveg. Líklega við rætur Vatnajökuls.

WalterMitty24

Hér er annað atriði sem gæti verið næstum hvar sem er á Íslandi.

WalterMitty25

Þetta er að sjálfsögðu Skógarfoss.

WalterMitty26

Hann fær blessun frá leiðsögumanninum á Breiðamerkursandi, með Fjallsjökul í baksýn.

WalterMitty27

Hann gefur Afghönskum stríðshöfðingum köku sem hálfgerðan vegtoll. Hluti af myndinni var tekin upp í Kálfafellsdal. Þetta atriði gæti hafa verið tekið upp þar.

Hér á eftir koma nokkur stutt atriði sem ég veit ekki hvar voru tekin upp, en mörg þeirra voru líklega tekin upp í Kálfafellsdal.


WalterMitty28
      drn 2   

sean

Hér finnur Walter Mitty vin sinn, Sean. Ekki viss hvar þetta er tekið, þó ég viti að þetta sé við rætur Vatnajökuls. Fjallið í baksýn gæti verið tölvugert.

WalterMitty39

Síðasta atriðið sem tekið var upp á Íslandi er fótboltaleikur á Breiðamerkursandi. Rétt hjá Jökulsárlóni.

Það er gaman að sjá hvernig Walter Mitty fór þvers og kruss um landið. Þetta er daglegt brauð í Hollywood, en þegar maður þekkir staðina svona vel þá er það ennþá meira áberandi. Hér er kort af ferðalögunum. Glöggir lesendur taka eftir að Garðinum var sleppt, það er af því að öll þau atriði voru tekin upp út á sjó.

kort

Er einhver mynd sem tekin hefur verið hér á landi sem þú hefðir áhuga á að fá grein um? Láttu okkur vita í athugasemdunum hér fyrir neðan.