Ný stikla: Hugo

Næsta mynd Martin Scorcese kemur út í Bandaríkjunum eftir mánuð, þó það verði ekki fyrr en eftir jól hér á klakanum, og lokastiklan fyrir myndina var að detta á netið. Myndin er að sjálfsögðu Hugo, fyrsta mynd meistarans í þrívídd, og sú fyrsta sem kalla má fjölskyldumynd. Myndin er byggð á bókinni The Invention of Hugo Cabret, og segir frá munaðarlausum dreng sem býr á lestarstöð í París, og kemst í kynni við gamlan mann sem vinnur í leikfangaverslun þar. Sagan byggir að hluta til á sannri sögu Georges Méliès, sem var einn mesti frumkvöðull kvikmyndalistarinnar þegar hún var að taka sín fyrstu skref en var ekki metinn að verðleikum og hætti vegna fjárhagserfiðleika að gera kvikmyndir. Sorglega margar af kvikyndum hans eru glataðar í dag.

Í helstu hlutverkum eru Asa Butterfield, Chloë Grace Moretz, Ben Kingsley, Sasha Baron Cohen, Jude Law, Michael Stuhlbarg og Christopher Lee. Myndin hefur fengið góðar viðtökur hjá þeim sem hafa séð hana, bæði fyrir að vera nokkurskonar óður Scorsese til kvikmyndalistarinnar, og fyrir góða notkun á þrívídd – sem alltof fáar myndir virðast vera að temja sér.
Stikluna má sjá hér að neðan, eða í betri gæðum hjá apple.com.