Fann Batman röddina hjá Dafoe

Leikarar sem hreppa hlutverk Leðublökumannsins standa frammi fyrir því að þurfa að finna sér réttu „Batman röddina“. Það er einmitt það sem nýi Batman leikarinn Robert Pattinson stendur frammi fyrir núna.

Margir þekkja rödd Michael Keaton, mjúka en samt ákveðna, og svo hina hrjúfu hvíslrödd Christian Bale í hlutverkinu. Nú virðist sem Pattinson hafi fundið sér sína eigin rödd, og það úr fremur óvæntri átt, að segja má.

Í viðtali við Access Hollywood, sem sjá má hér fyrir neðan, er Pattinson spurður út í hvort hann hafi æft Batman röddina sína, og þar segir hann að meðleikari hans í kvikmyndinni The Lighthouse, sem væntanleg er í bíó hér á landi í nóvember, Willem Dafoe, hafi gefið honum innblástur í þessum efnum. „Rödd Willems í [ The Lighthouse ] var mér mikill innblástur, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Hún er nokkuð lík þeirri rödd sem ég ætla að nota.“

Í myndbandinu líkir hann svo eftir röddinni í gríni, sem gæti verið vísbending um það sem koma skal, eða ekki …

Þeir sem séð hafa The Lighthouse vita að rödd Dafoe er líkari Captain Ahab skipstjóra en Batman í raun og veru, en er þó með sendnu yfirbragði. „Ég held að Batman sé með svona hálfgerða sjóræningjarödd. Ég held að þeir passi vel saman.“

Eins og Entertainmen Weekly bendir á þá er sjóræningjabatman raunverulegt fyrirbæri, og einhverjir myndu sjálfsagt fagna því ef leikstjórinn Matt Reeves færi þá leið með myndina.

The Batman, með Paul Dano í hlutverki Gátumannsins, og Zoë Kravitz sem Kattarkonan, kemur í bíó 25. júní árið 2021.

Hér fyrir neðan er samtalið við Pattinson: