Handritshöfundur Contagion tjáir sig: „Ekki spurning um hvort, heldur hvenær“

Á undanförnum mánuðum hefur spennutryllirinn Contagion frá 2011 vakið heilmikið umtal í ljósi útbreiðslu kórónuveirunnar og komið sér hratt á ófáa vinsældarlista. Margir hafa verið að kynna sér myndina, annaðhvort upp á nýtt eða í fyrsta sinn, og er víða rætt hvernig framvinda hennar speglar samtímann í dag.

Contagion er leikstýrt af Steven Soderbergh og hlaðin leikurum sem flestir ættu að kannast við. Hún fjallar um fall samfélags í kjölfar heimsfaraldurs og þróun bóluefnis til þess að koma í veg fyrir að veiran smitist víðar. Í myndinni eru nokkrir söguþræðir sem orka hver á annan, eins og í öðrum kvikmyndum Soderberghs. Þess má geta að veiran á uppruna sinn að rekja til Kína.

Myndin hlaut þrusugóða dóma á sínum tíma og hefur hún hlotið sérstakt lof fyrir sterkt handrit, með raunhæfa og vandaða framsetningu á sviði heilbrigðisvísinda, svo dæmi sé nefnt.

Scott Z. Burns, handritshöfundur myndarinnar, segir endurteknar og vaxandi vinsældir Contagion ekki koma sér á óvart, heldur fjarri því. Í samtali við fréttatímaritið Slate segist hann hafa lengi vitað að veirufaraldur af þessu tagi myndi skella á fyrr en síðar.

„Ég talaði við fjölmarga vísindamenn [á meðan handritsvinnu stóð] og allir voru sammála því að þetta væri ekki spurning um hvort, heldur hvenær,“ segir Burns.

„Sem manneskja sem hefur trú á vísindunum finnst mér mikilvægt að við hlustum á allt sem fagfólk hefur að segja um svona mál.“

Þá segir Burns að hann hafi aldrei grunað á sínum tíma að ríkisstjórn Bandaríkjanna yrði jafn slæm og hún er í dag. Áður hefðu leiðtogar betur hugað að heilbrigðismálum, nú séu góð ráð dýr. „Forsetinn og repúblikanar tala um að vernda fólk með veggjum og við getum ekki einu sinni fengið búnað fyrir prufur,“ segir hann og vill undirstrika það hversu óhugnanlegt það er að bera saman fjölda fólks sem hefur farið í prufur í Bandaríkjunum við önnur lönd.