Baltasar leikstýrir myndinni um Höfðafundinn

Baltasar_Kormakur_Reykjavik_rotterdamSamkvæmt heimildum Vísis þá mun Baltasar Kormákur leikstýra myndinni um leiðtogafund Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev sem átti sér stað í Höfða árið 1986.

Eins og flestir vita þá átti fundurinn að leiða til sátta milli leiðtoga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna á hápunkti kalda stríðsins og var m.a. rætt um leiðir til að fækka kjarna­vopn­um í heim­in­um.

Leikstjórar á borð við Ridley Scott og Mike Newell voru áður orðaðir við myndina sem hefur verið með vinnutitillinn Reykjavik í nokkurn tíma. Leikararnir Michael Douglas og Christoph Waltz hafa verið ráðnir til þess að leika aðalhlutverkin.

Baltasar lauk nýlega tökum á kvikmyndinni Everest, með þeim Jake Gyllenhaal og Josh Brolin í aðalhlutverkum. Everest er byggð á sannsögulegum atburði, þegar átta fjallgöngumenn fórust í aftakaveðri á hæsta fjalli jarðar, Everest, 11. maí árið 1996 en það er eitt af mannskæðustu slysum sem orðið hefur á fjallinu.