S.H.I.E.L.D. þættir frá Marvel staðfestir

Joss Whedon mun framleiða sjónvarpsþætti byggða á svölustu leyniþjónustu Marvel heimsins, S.H.I.E.L.D.  og mun hann einnig leikstýra fyrsta þættinum. Þetta var staðfest fyrir stuttu.  Whedon mun skrifa handrit fyrsta þáttarins ásamt bróður sínum Jed Whedon og Maurissa Tancharoen, sem vann með honum í Dr. Horrible’s Sing-along Blog.

Frá því að það var staðfest að Whedon myndi skrifa og leikstýra Avengers 2 sem kemur út höfum við vitað að Whedon myndi hjálpa til við yfirsjón „annars fasa“ Marvel kvikmyndaheimsins (Iron Man 3, Thor: The Dark World, Captain America: The Winter Soldier, The Guardians of the Galaxy og mögulega Ant-Man) ásamt því að hjálpa til við gerð sjónvarpsþátta fyrir sjónvarpsstöðina ABC. Þetta eru fyrstu vísbendingar okkar um hvað þeir þættir munu fjalla.

S.H.I.E.L.D. (Strategic Homeland Intervention, Enforcement and Logistics Division) er, eins og allir sem hafa séð Marvel myndirnar vita, leyniþjónustan sem var á bakvið það að safna ofurhetjunum Iron Man, Captain America, Thor og Hulk saman í kvikmyndinni Avengers. Eineygði harðjaxlinn Nick Fury er forstjóri hennar, og var hann leikinn af Samuel L. Jackson í myndinni. Enn vitum við ekkert um hvort hann eða aðrir leikarar sem við þekkjum úr einhverjum kvikmyndanna munu vera viðloðnir þættina, en þó þykir nokkuð víst að við munum ekki sjá frægustu ofurhetjurnar poppa við í hverjum einasta þætti. Framleiðsla mun hefjast innan skamms, þannig að brátt munum við eflaust vita meir um eðli þáttanna.

Þættirnir marka endurkomu Whedons á litla skjáinn, þar sem hann hafði unnið öll sín helstu meistaraverk áður en kom að Avengers myndinni. Þannig geta aðdáendur Buffy the Vampire Slayer, Firefly og Dollhouse farið að líta í kring um sig og séð hvort eftirlætis leikarar þeirra nái að snapa störf í nýja þættinum. Whedon er nefninlega talsvert þekktur fyrir að vinna aftur og aftur með sömu leikurunum. Þættirnir verða fyrsta tilraun Marvel í sjónvarpsheiminum (nýlega) en líklega ekki sú síðasta. Guillermo del Toro hefur í dágóðan tíma verið að vinna að sjónvarpsþáttum sem fjalla eiga um Hulk, en ekki er vitað hver staða þeirra er eftir tilkynninguna í dag.

Hvað sem gerist þá treysti ég Marvel, og ég treysti Whedon. Þessir þættir eru strax komnir á Must-see listann hjá mér – sem er alls ekki langur í sjónvarpsþátta deildinni. Hvað með ykkur lesendur góðir?

Ps. í tilefni dagsins er hér „alternate opening“ á Avengers myndinni sem hefði byrjað myndina á allt öðrum og alvarlegri nótum. Kíkið á það: