Fimmta Avatar myndin bætist við

Avatar-Thumb2Leikstjórinn James Cameron kom fram á CinemaCon ráðstefnunni í Las Vegas sem nú stendur yfir, í panel-umræðum 20th Century Fox kvikmyndaversins, og sagði þar að ekki einungis væri búið að bæta enn einni Avatar mynd við fyrirhugaðan lista af Avatar framhaldsmyndum, heldur væri  búið að fresta Avatar 2 þar til árið 2018.

Framhaldsmyndirnar verða allar frumsýndar í kringum jól, og sú fyrsta, eins og fyrr sagði jólin 2018.  Avatar 3 kemur tveimur árum á eftir henni, 2020,   Avatar 4 2022 og Avatar 5 2023.

„Við erum að gera fjórar stórmyndir sem eru allar sjálfstæðar en mynda eina sögu sameiginlega. Myndirnar verða allar hannaðar til að verða sýndar í kvikmyndahúsum fyrst. Ég hef unnið með fjórum bestu handritshöfundum og hönnuðum í heimi til að skapa þessa veröld.  Umhverfið, nýir menningarheimar, hvað sem þarf til að gera þetta að veruleika,“ sagði Cameron meðal annars.

Ekkert er enn vitað um söguþráð myndanna, en það eina sem vitað er, er að við sögu koma nýjar persónur, hugmyndir og umhverfi fyrir áhorfandann að njóta.

Leikarar fyrstu myndarinnar, Sam Worthington, Zoe Saldana og Sigourney Weaver mæta til leiks í mynd númer tvö, sem sögð er gerast að miklu leiti neðansjávar.

Nú er bara að byrja að láta sig hlakka til jólanna 2018!