Avatar 2 í tökur í október 2014

Góðar fréttir voru að berast af framhaldi þrívíddarstórsmellsins Avatar eftir James Cameron. Undirbúningur að tökum næstu myndar, þeirrar annarrar í röðinni, gengur vel og munu tökur hefjast í október á næsta ári, 2014.

Avatar

Aðalleikari myndarinnar, Sam Worthington, sagði í viðtali við ástralska útvarpsstöð að hann teldi að tökur gætu hafist í október nk. Hann sagði þar einnig að meirihluti handritsins sé nú þegar tilbúinn af hendi James Cameron sjálfs, og nú séu aðrir höfundar komnir að verkinu til að fínpússa það.

„Við munum byrja um þetta leyti á næsta ári og við munum gera myndir númer tvö, þrjú og fjögur í einum tökum,“ sagði hann við áströlsku útvarpsstöðina NovaFM. „Við munum gera þær samtímis. Ég verð ánægður þegar því er síðan öllu lokið.“

Fox tilkynnti fyrr á þessu ári að gerðar yrðu þrjár framhaldsmyndir og að Cameron hefði ráðið handritsteymið Josh Friedman (War of the Worlds), Rick Jaffa & Amanda Silver (Rise of the Planets of the Apes) og Shane Salerno (Savages, Salinger) til að hjálpa sér með Avatar 2, Avatar 3 og Avatar 4.

„Ég held að Jim sé að byggja farkostinn til Pandora, held ég sé rétt að segja,“ bætti Worthington við.

Avatar 2 kemur í bíó í desember árið 2016.