Tökur á Avatar 2 og 3 og Star Wars 7 hefjast á sama tíma

Tökur á þeim tveimur framhaldsmyndum sem hvað flestir bíða eftir, Star Wars Episode VII og Avatar 2, munu samkvæmt heimildum hefjast á sama tíma, eða snemma árs 2014.

Þetta kemur fram í máli framleiðanda annarrar myndarinnar og aðalleikara hinnar.

Bryan Burk, framleiðandi og samstarfsmaður J.J. Abrams leikstjóra Star Wars VII til margra ára og meðstofnandi Bad Robot framleiðslufyrirtækisins með Abrams, tjáði sig með þessum hætti um Star Wars VII, en Zoe Saldona, aðalleikkona Avatar, minntist á tökuáætlun myndarinnar í spjallþætti í sjónvarpi.

Saldana, sem mun næst leika í Marvel myndinni Guardians of the Galaxy, staðfesti einnig það sem áður hefur komið fram að Avatar 2 og 3 verði teknar upp samtímis.

Burk, sem mun framleiða Star Wars Episode VII með Abrams, sagði eftirfarandi við Collider vefsíðuna: 

„Allt gengur samkvæmt áætlun og vonandi byrjum við á næsta ári, eða í byrjun næsta árs, en tökustaðurinn er enn dálítið á reiki og fer eftir handritinu og ýmsum öðrum atriðum.“

Saldana kom fram í spjallþættinum breska The Jonathan Ross Show og staðfesti þar að Avatar 2-3 myndi byrja í tökum snemma á næsta ári.

„Ég held að þeir ætli að taka upp hluta tvö og þrjú og munu líklega taka þá upp á sama tíma. Ef við gerum bara annan hlutann og bíðum svo, þá yrði ég örugglega orðin 45 eða 50 ára þegar við gætum gert hluta þrjú. Þetta tekur langan tíma, og er erfiður ferill.“

Ef þessar upplýsingar standast, þá lítur út fyrir að Star Wars VII verði frumsýnd sumarið 2015. Avatar gæti tekið aðeins lengri tíma, enda tvær myndir teknar í einu, og því er líklegt  að frumsýning hennar yrði ekki fyrr en um jólin það sama ár, eða 2015.