Steve Jobs-myndin þróast enn hraðar

Eftir nýlegt andlát Eplamannsins Steve Jobs leið ekki langt þangað til að Hollywood var farið að íhuga kvikmynd um kappann, og nýlega í fréttum hafa uppfærslur verið óvenjulega snöggar. Nú þegar eru menn á borð við George Clooney og Noah Wyle sagðir koma til greina í aðalhlutverkið, þótt það geti að sjálfsögðu breyst, en víst er þó að framleiðendur eru búnir að negla niður handritshöfund verksins.

Aaron Sorkin, maðurinn á bakvið The West Wing, Charlie Wilson’s War og eflaust þekktastur í dag fyrir að skrifa The Social Network, hafði lengi komið til greina en nú segist handritshöfundurinn hafa ósvikinn áhuga á verkefninu.

„Sony hefur beðið mig um að skrifa þessa mynd,“ segir Sorkin í viðtali við sjónvarpsstöðina E! „Ég er alls ekki búinn að útiloka þetta. Þetta er mjög stór mynd og þetta verður framúrskarandi mynd, alveg sama hver skrifar hana.“

Sorkin er sagður vera óstöðvandi í bransanum í dag og þeir sem sáu The Social Network geta t.d. séð hvernig samtöl eru sterkasta hliðin hans. Sorkin var einn af nokkrum sem sannaði að það væri hægt að gera góða mynd sem fjallaði um tvo drengi sem fundu upp á byltingarkenndri vefsíðu. Löngu áður en sú mynd kom út voru menn ekki alfarið bjartsýnir að „Facebook-mynd“ væri sniðug hugmynd. Óskarinn og gagnrýnendur voru greinilega ósammála.