Óskarsverðlaunahöfundur látinn, 87 ára gamall

Óskarsverðlaunahafinn og handritshöfundurinn William Goldman er látinn. Hann lést í dag, 16. nóvember, á heimili sínu í New York, 87 ára gamall.

Goldman skrifaði handritið að Óskarsverðlaunakvikmyndunum Butch Cassidy and the Sundance Kid og All the President´s Men. Þá á hann heiðurinn af handriti myndanna Marathon Man, Magic og The Princess Bride.

Hans er einnig minnst fyrir að áhugaverðar yfirlýsingar, eins og „Enginn veit neitt“ , þar sem hann var að tjá sig um kvikmyndaiðnaðinn í ævisögu sinni Adventures in the Screen Trade.

Goldman hóf ferilinn sem skáldsagnahöfundur, áður en hann hóf innreið sína í kvikmyndabransann, með handritinu að njósnamyndinni Masquerade frá árinu 1965.

Leikarinn Paul Newman lék í nokkrum af myndum Goldman, þar á meðal í The Moving Target og Butch Cassidy, en í þeirri síðarnefndu lék einnig Robert Redford.

Goldman lést eins og fyrr sagði á heimili sínu í New York í dag, og sagt er að heilsa hans hefði verið slæm um hríð. Jenny Goldman, dóttir hans, staðfesti andlát hans við The Washington Post, og sagði að hann hefði þjáðst af  krabbameini og lungnabólgu.

Kvikmyndastjörnur eins og Ben Stiller, Michael Sheen og Mia Farrow hafa öll minnst Goldman. Stiller sagði til dæmis að Goldman hefði skapað margar af áhrifamestu kvikmyndum áttunda áratugarins og eftir það.