Íslenskt efni með víða dreifingu á Netflix erlendis

Í íslenskri kvikmyndagerð er oft slegist um þann heiður að vera endurgerðar erlendis og hafa ófáar endurgerðir á íslenskum verkum verið settar á teikniborðið undanfarin ár.

Aftur á móti er það ekki síður merkilegur árangur þegar okkar eigið, innlenda afþreyingarefni finnur ákveðinn sess og markað erlendis.

Heppilega, með góðri útbreiðslu Netflix, hefur ýmist íslenskt efni hitt í mark á streyminu utan landsteinana. Neðangreindar kvikmyndir og þáttaseríur eru á meðal þess efnis.

Andið eðlilega (And Breathe Normally)

Kvikmynd Ísoldar Uggadóttur hefur undanfarna mánuði verið sjáanleg í Norður- og Suður-Ameríku, á Norðurlöndum, víða um Evrópu og einnig Afríku. Á Íslandi er hægt að sjá hana gegnum netleigur Símans og Vodafone. Myndin hefur hlotið frábæra dóma og fjölda verðlauna. Myndin segir frá hælisleitanda frá Gíneu-Bissá á leið til Kanada sem verður strandaglópur í Keflavík þegar starfskona við vegabréfaeftirlit stöðvar hana vegna ófullnægjandi ferðaskilríkja. Um leið og hún berst við kerfið á Íslandi, tengist hún óvænt einstæðri móður í húsnæðisbasli, þeirri sömu og hneppti hana í varðhald á Leifsstöð.


The Valhalla Murders (Brot)

Sjónvarpsþáttaröðin Brot hefur notið gífurlegra á Netflix víða um heim. Þættirnir voru nýlega gefnir út á streymisveituna í Bandaríkjunum, Noregi, Danmörku, Spáni, Svíþjóð, Frakklandi og Nýja Sjálandi svo dæmi séu nefnd, en þar ganga þeir undir heitinu The Valhalla Murders.

Óttar M. Norfjörð, einn handritshöfundur þáttanna, greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni og segir þar að Brot sé þessa dagana á lista yfir tíu vinsælustu þáttaraðirnar í ofantöldum löndum.

Þættirnir hófu göngu sína á Íslandi um síðustu jól og segja frá því þegar eldri karlmaður finnst myrtur við Reykjavíkurhöfn undir óvenjulegum kringumstæðum. Í kjölfarið fer af stað ótrúleg atburðarrás sem tengist atburðum sem áttu sér stað á drengjaheimili. Það eru Nína Dögg Filipusdóttir og Björn Thors fara sem fara með aðalhlutverkin í þáttunum.


Réttur (Case)

Þætt­irn­ir sem fram­leidd­ir voru af Sagafilm voru fyrst sýnd­ir á Stöð 2 haustið 2015 und­ir nafn­inu Rétt­ur 3. Net­flix hefur verið sýnt í Bandaríkjunum en einnig fjölmörgum öðrum löndum. Streymisveitan hef­ur tal­sett þætt­ina á þýsku, frönsku, spænsku, ít­ölsku og portú­gölsku. Þætt­irn­ir hafa fengið mikið lof gagn­rýn­anda og voru t.d á lista New York Times yfir bestu þátt­araðir árs­ins 2016.


Ég man þig (I Remember You)

Hryllingsmyndin Ég man þig var mest sótta íslenska myndin í kvikmyndahúsum árið 2017. Myndin fjallar um ungt fólk sem er að gera upp hús á Hesteyri um miðjan vetur fer að gruna að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Á Ísafirði dregst nýi geðlæknirinn í bænum inní rannsókn á sjálfsmorði eldri konu, en svo virðist hún hafi verið heltekin af syni hans sem hvarf fyrir nokkrum árum og fannst aldrei.


Out of Thin Air

Mynd um Geirfinnsmálið sem gerist árið 1976. Sex manns játa á sig tvö morð. Myndin hefst á hinni dramatísku sögu af hvarfi Guðmundar Einarssonar og svo Geirfinns Einarssonar árið 1974. Síðan víkur sögu til þeirra sex ungmenna sem handtekin voru fyrir að hafa ráðið þeim bana. Byggt er á frásögn þeirra sem upplifðu atburðarrásina.


Eiðurinn (The Oath)

Ellefta kvikmynd Baltasars Kormáks þar sem hann fer með aðalhlutverkið ásamt Heru Hilmarsdóttur og Gísla Erni Garðarssyni. Myndin hlaut ágætar viðtökur og mikla aðsókn í íslenskum kvikmyndahúsum á sínum tíma og hefur fengið prýðisdreifingu utanlands.

Leikstjórinn leikur mann sem þykir skara fram úr í starfi sínu sem hjartaskurðlæknir. Þegar hann áttar sig á að dóttir hans er komin í neyslu og kynnir þekktan dópsala fyrir fjölskyldunni sem nýja kærastann, koma fram brestir í einkalífinu. Skurðlæknirinn ákveður þá að taka í taumana og er staðráðinn í að koma dótturinni á réttan kjöl, hvað sem það kostar.


Hamarinn (The Lava Field/The Cliff)

Dularfullt slys verður þar sem unnið er að línulögn í tengslum við umdeildar virkjunarframkvæmdir og sprengiefni er stolið. Lögreglumaður sem sendur er á staðinn uppgötvar fljótt að ekki er allt jafn slétt og fellt og virðist við fyrstu sýn í sveitinni fögru. Fleiri dularfullir atburðir eiga sér stað og sumir telja skýringanna að leita hjá öflum utan hins sýnilega heims.

Hamarinn er saga um mannlegt eðli í margbreytileika sínum og þá staðreynd að allir eiga sér leyndarmál sem ráða meiru um gerðir þeirra en það sem við blasir á hörðu og köldu yfirborðinu.