Alien, Ghostbusters og The Matrix sýndar í vikunni

Bíósumarið 2020 hefur verið hið óvenjulegasta. Samkvæmt úttekt veftímaritsins Vulture hefur útgáfu 77 stórmynda verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Þar á meðal eru fjölmargar kvikmyndir sem átti að sýna í vor eða sumar. Faraldurinn hefur jafnframt haft áhrif á útgáfudag kvikmynda sem væntanlegar eru á næsta ári.

Eftir að kvikmyndahús opnuðu á ný í kjölfar Covid-19 hefur verið reynt að bæta upp skort á nýjum titlum með því sýna eldri myndir. Um þessar mundir er til dæmis hægt að sjá kvikmyndirnar The Goonies, The Shining, The Empire Strikes Back, Forrest Gump, Lord of the Rings-þríleikinn og fleiri.


Á komandi vikum verður áfram haldið og frá og með miðvikudeginum 15. júlí lenda hinar sígildu sci-fi myndir Alien (1979) og The Matrix (1999), tvær kvikmyndir sem sett mark sitt á kvikmyndasöguna og rúmlega það.

Til að mynda kom Alien nöfnum eins og Sigourney Weaver, Ridley Scott og H.R. Giger rakleiðis á kortið og vefur saman vísindaskáldskap og hrollvekju í einn ástsælasta spennutrylli fyrr eða síðar. Þarna fylgjumst við með áhöfn geimskipsins Nostromo sem lendir á dauðvona plánetu eftir dularfullt neyðarkall, en skömmu eftir lendingu tekur tekur við óhugnaður og aðskotahlutur sem enginn bjóst við.


Árið 1999 kom The Matrix flestum áhorfendum að óvörum og tókst þessari stórmynd Wachowski-tvíeykisins að gjörsamlega sigra bíósumarið það árið. Útkoman var gífurlega vinsæl kryddblanda af vísindaskáldskap, hasar, eftirheimsendatrylli og þótti útkoman vera gífurlegur brautryðjandi í tæknibrellum.


Þann 16. júlí verður einnig í boði að sjá hina stórvinsælu gamanmynd Ghostbusters, þá upprunalegu frá 1984. Í henni segir af þremur undarlegum náungum, háskólakennurum í dulsálarfræði sem reknir eru úr starfi og ákveða að gerast draugabanar.

Í fyrstu virðist sem enginn hafi áhuga á þjónustu þeirra en fljótlega fara draugar á kreik og þá getur enginn stöðvað nema draugabanarnir. Leikstjóri myndarinnar er Ivan Reitman og með aðalhlutverk fara Bill Murray, Dan Aykroyd, Sigourney Weaver, Harold Ramis, Rick Moranis og Ernie Hudson.

Athugið að aðeins verður í boði að sjá Ghostbusters þennan eina dag í Smárabíói en ofannefndu myndirnar fara beint í almennar sýningar.
Alien verður sýnd í Sambíóunum Egilshöll en Matrix hefur (endur)göngu sína í Kringlunni.

Má þess einnig geta að Aliens frá James Cameron verður sýnd í næsta mánuði og herma sögur að á dagskránni má eiga von á The Godfather, Jurassic Park og fleiri sígildum.