Maðurinn á bakvið Alien

Fáir vita að nígeríski hönnunarneminn Bolaji Badejo lék geimveruna í kvikmyndinni Alien sem Ridley Scott leikstýrði árið 1979. Enn færri vita að meðlimur í tökuliði myndarinnar fann hann á bar og benti Scott á hann. Þetta er eina hlutverk hans í kvikmyndum til þessa, en hann þótti meðal annars henta betur en Peter Mayhew (a.k.a. Chewbacca) í hlutverkið.

Scott fékk hann til þess að leika í myndinni einkum vegna þess að Badejo er 208 cm á hæð, mjög grannur og með langa útlimi. Scott taldi að með því að hanna Alien búninginn á Badejo tækist honum að skapa þá sjónhverfingu að það gæti ekki verið manneskja inni í búningnum, sem myndi auka á hræðsluna.

Fyrir um ári síðan dúkkaði upp æfingaatriði á YouTube sem sýnir Badejo æfa sig fyrir hlutverkið í stuttbuxum með Alien hjálminn á hausnum.

,,Hjálminum var stýrt með fjarstýringu og ég var að æfa mig fyrir tökur svo við gætum verið vissir um að líkamsbeitingin væri rétt og höfuðið liti vel út. Ég er viss um að við notuðum 2000 dollur af slími til þess að fá slefið úr munninum á geimverunni til að líta vel út. Ég sá ekki neitt með hjálminn á mér nema þegar ég stóð algerlega kyrr, en þá gat ég greint hreyfingar í gegnum örfá göt á hjálminum.“ sagði Badejo í viðtali á sínum tíma.

Æfingaatriðið má sjá hér fyrir neðan og ég veit ekki hvort ég eigi að grenja eða hlægja. Mér finnst eiginlega meira krípi að sjá geimveruna þarna en í upprunalegu myndinni, en það er kannski bara ég. Í dag yrði þetta eflaust bara gert með tæknibrellum, en ég er ekki frá því að það sé meira töff að gera þetta svona.

Stikk: