Prometheus stiklan hrellir vel

Eruð þið tilbúin að missa ykkur úr spenningi? Fyrsta stiklan fyrir endurkomu Ridley Scotts í hrollvekjubransann, Prometheus, hefur loks verið birt á netinu og glöggir aðdáendur myndarinnar Alien eftir leikstjórann kannast að sjálfsögðu við uppfærða stefið sem heyrist í stiklunni, enda er stiklan uppbyggð eins og sú sígilda fyrir Alien.

Eins og sést hefur myndin margt að geyma sem Alien-aðdáendur veltu fyrir sér þegar Nostromo-áhöfnin skoðaði skipsbrakið í þeirri mynd; hvernig brotlenti það? Hvaðan kom það? Hver var tilgangur þess? Í stiklunni sjáum við skipið brotlenda og ófríðu plánetuna sem það brotlennti á og ýmist annað sem minnir á klassísku geimhrollvekjuna.

Dettifoss kemur einnig fram í stiklunni og verður spennandi að sjá hvaða áform Ridley Scott hafði fyrir þennan íslenska áfangastað í myndinni. Eitt er þó víst; hér á ferð er drungaleg og epísk hrollvekja sem margir hafa beðið spenntir eftir- sumir jafnvel í mörg ár.

Er þetta ekki endurkoman sem við höfum beðið eftir frá honum Ridley gamla?