Nýtt í bíó – Alien: Covenant

Geimtryllirinn Alien: Covenant verður frumsýnd á morgun miðvikudag, í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói, Akureyri.

Áhöfnin á Covenant geimskipinu uppgötvar áður óþekkta paradís. Fyrr en varir komast meðlimir hennar að því að hún er í raun og veru mjög dimm og drungaleg veröld þar sem vélmennið David hefur komið sér fyrir.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Áhugaverðir punktar til gamans: 

-Mikil leynd hefur hvílt yfir söguþræðinum í Alien: Covenant og þótt búið sé að frumsýna tveggja og hálfrar mínútna stiklu úr henni eru menn litlu nær um nokkur lykilatriði. Það helsta er sú spurning
hvort myndin tengist fyrstu Alien-myndinni beint eða hvort enn eigi eftir að gera kafla þar á milli. Annað er tvöfalt hlutverk Michaels Fassbender, annars vegar sem vélmennisins Davids og hins vegar sem vélmennisins Walters, en þau líta nákvæmlega eins út. Þess má geta að Walter er með sína eigin vefsíðu, meetwalter.com sem áhugasamir hafa eflaust gaman af að kynna sér. Hið þriðja er plánetan dularfulla sjálf. Er hún upprunaleg heimkynni skrímslanna eða eru þau landnemar þar líka eins og í fyrri myndunum? Sé svo, fáum við þá að vita hvaðan þau komu upphaflega? Eru skrímslin plöntur? Þessum og vafalaust mörgum öðrum spurningum verður sennilega ekki svarað fyrr en á frumsýningardeginum 17. maí.