Pacino og Walken fara út á lífið

Stiklan fyrir Al Pacino myndina Stand Up Guys var að detta á netið. Ef melankólísk en gamansöm mafíósamynd með þéttum leikhóp og góðu tvisti hljómar vel fyrir þér mæli ég samt með því að þú sleppir því bara að horfa á stikluna og lesa restina af þessari frétt, og merkir bara útgáfudagsetningu myndarinnar í dagbókina. Hún spillir nefninlega svona full miklu. Að loknum viðvörunum er hér stiklan.

Nú fyrir þá sem einhverra hluta vegna gátu ekki horft á stikluna, en vilja samt vita söguþráð myndarinnar, þá fjallar hún um fyrstu nótt gamals mafíósa (Pacino) úti á lífinu eftir að losna úr 28 ára fangelsi. Dómurinn var svo harður því hann neitaði að koma upp um félaga sína (Christopher Walken, Alan Arkin), sem fagna rækilega með honum þetta kvöld. En ekki halda að þessi mynd sé bara eldri borgara útgáfan af The Hangover. Sá hangur er á, að ef persóna Walkens drepur ekki nýfrjálsan félaga sinn fyrir sólarupprás, ætlar fyrrverandi Mafíuforinginn (Mark Margolis) þeirra að drepa þá báða.

Handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar eru báðir algjörir nýgræðlingar, en þetta lítur nógu vel út fyrir mig. Vissulega mun betur en flest það sem Al Pacino hefur sést í síðustu, hvað, 15 árin.  Einnig er það plús undir öllum kringumstæðum að hafa Christopher Walken innanborðs.