Fast 6 sigraði töframenn og túrista

Eins og við sögðum frá í gær þá ætlar að verða einhver bið á því að Will Smith takist að gera súperstjörnu úr syni sínum Jaden, eftir að vísindaskáldsaga þeirra feðga After Earth náði ekki þeim vinsældum í miðasölunni í Bandaríkjunum sem vonast hafði verið eftir.

fast and the furious 6

Áætlaðar tekjur myndarinnar yfir helgina eru 27 milljónir Bandaríkjadala, sem er nokkuð fyrir neðan vinsælustu mynd helgarinnar, Fast & Furious 6 sem þénaði 35 milljónir dala á sinni annarri viku á lista.

Töfratryllirinn Now You See Me var önnur vinsælasta myndin um helgina í Bandaríkjunum með 28 milljónir dala í tekjur, sem er 10 milljónum dala meira en spáð hafði verið.

Í After Earth, sem leikstýrt er af M. Night Shyamalan, leika þeir Smith feðgar geimferðalanga sem stranda á Jörðinni 1.000 árum eftir að mannkynið hefur yfirgefið plánetuna. Búist hafði verið við því að myndin myndi velgja Fast and Furious 6 undir uggum og veita henni harða keppni um toppsæti helgarinnar. Úr því rættist ekki.

Framleiðendur sáu After Earth fyrir sér sem þríleik, en nú er spurning hvað verður um þær fyrirætlanir. Best að bíða og sjá …

Í fjórða sæti á aðsóknarlista helgarinnar í Bandaríkjunum var Star Trek Into Darkness og í fimmta sæti var teiknimyndin Epic, en þær þénuðu báðar í kringum 16 milljónir dala.

Fast and the Furious 6 er nú búin að þéna 170 milljónir dala í Bandaríkjunum sem þýðir að myndin er búin að þéna alls 480 milljónir dala á alþjóðavísu frá frumsýningu.

Myndin mun auðveldlega ná því að verða vinsælasta „Fast“ myndin í seríunni.