Ad Astra rýkur upp aðsóknarlistana

Geimtryllirinn Ad Astra, með Brad Pitt í aðalhlutverki, fer af stað með hvelli innan og utan Bandaríkjanna, en kvikmyndin varð hlutskörpust í miðasölu helgarinnar á alþjóðamarkaði, með 26 milljónir dala í tekjur í 44 löndum. Samtals voru tekjur myndarinnar, alþjóðlega og í Bandaríkjunum, um helgina, 45,2 milljónir dala, en í Bandaríkjum námu tekjurnar 19,2 milljónum dala. Myndin verður frumsýnd hér á Íslandi um næstu helgi.

Pitt horfir út í geiminn.

Þetta gengi myndarinnar er samkvæmt Deadline kvikmyndavefnum í samræmi við spár, og er til dæmis 49% betri aðsókn en hjá geimmyndinni First Man fyrir réttu ári, og 23% betri aðsókn en á enn annan geimtrylli, Arrival, frá 2016.

Ad Astra var heimfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á dögunum, og er leikstýrt af James Gray.

Af gengi annarra nýrra mynda utan Bandaríkjanna er það að segja að It Chapter Two, sem hefur átt góðu gengi að fagna hér á landi, sigldi um helgina yfir 200 milljóna dala markið í tekjum utan Bandaríkjanna. Þó á enn eftir að frumsýna myndina í Japan. Samtals, með bandarískri aðsókn, eru tekjur myndarinnar orðnar 385,1 milljón dala. Spurning hvort að menn séu byrjaðir að huga að It 3 ?

Þá flykktist fólk einnig í bíó að sjá bresku kvikmyndina Downton Abbey, og samtals eru áætlaðar tekjur myndarinnar 30,8 milljónir dala utan Bandaríkjanna.

Enn eru ekki komnar endanlegar tölur fyrir nýju Rambo myndina, Last Blood, en greiningarfyrirtækið comScore telur að tekjur af miðasölu á hana nemi 9,27 milljónum dala í 33 löndum.