Frumsýning: A Good Day To Die Hard

Sena frumsýnir á fimmtudaginn næsta, þann 14. febrúar, spennumyndina A Good Day To Die Hard, með Bruce Willis í aðalhlutverkinu, í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói, Sambíóunum Egilshöll og Borgarbíói Akureyri.

Í tilkynningu frá Senu segir að nú sé John McClane mættur á svæðið í fimmtu Die-Hard myndinni og kemst nú að því að sonur hans, Jack McClane er engu minna hörkutól en hann sjálfur.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:

„Það er að sjálfsögðu Bruce Willis sem leikur John McClane og í hlutverki sonar hans er Jai Courtney, sá hinn sami og lék Charlie í Tom Cruise-myndinni Jack Reacher. Í þetta sinn ferðast John til Moskvu í því skyni að aðstoða son sinn Jack sem John heldur að sé á einhverjum villigötum. Hann verður því meira en lítið undrandi þegar í ljós kemur að Jack er í raun útsendari bandarísku leyniþjónustunnar og er í Moskvu til að koma í veg fyrir að rússneskir glæpamenn sem svífast einskis geti átt stórhættuleg viðskipti með kjarnorkuvopn. Áður en hægt er að telja upp að þremur er John kominn á kaf í málið ásamt syni sínum og framundan er þvílík barátta og hasar að sennilega hefur aldrei annað eins sést á hvíta tjaldinu,“ segir í tilkynningunni.


Handrit A Good Day To Die Hard er fyrsta handritið sem er skrifað beint sem Die Hard-mynd, en öll hin fjögur handritin voru upphaflega að öðrum myndum sem hétu annað. Þannig varð Die Hard til úr handriti myndarinnar Nothing Last Forever sem átti að vera framhald myndarinnar The Detective, Die Harder átti upphaflega að vera Commando 2, Die Hard With a Vengeance varð til úr handritinu Simon Says og Live Free or Die Hard hét upphaflega WW3.com og hafði ekkert með John McClane að gera frekar en hin þrjú handritin.

„Það hefur sennilega fáum dottið í hug þegar fyrsta Die Hard-myndin var gerð árið 1988 að fimmta myndin yrði frumsýnd árið 2013, 25 árum síðar og að Bruce Willis yrði enn á sínum stað sem John McClane.“

Leikstjóri: John Moore.
Handrit: Skip Woods og Roderick Thorp.
Aðahlutverk: Bruce Willis, Jai Courtney og Sebastian Koch.
Frumsýnd: 14. febrúar.
Hvar: Smárabíó, Háskólabíói, Laugarásbíó, Sambíó Egilshöll og Borgarbíó Akureyri.