1.000 manns sáu Hvell

Sýningar á Hvelli, nýjustu heimildarmynd Gríms Hákonarsonar byrja með hvelli. Í tilkynningu frá framleiðanda myndarinnar segir að aðsóknin hafi gengið vonum framar og aðstandendur séu himinlifandi með viðtökurnar. Um 1.000 manns hafi séð myndina á einni viku.

„Hvelli hefur hvarvetna verið vel tekið og voru Mývetningar sérstaklega ánægðir með myndina. Hún hefur hlotið einróma lof gagnrýnanda, 5 stjörnur í Mogganum, 4 stjörnur í Fréttablaðinu og 4 stjörnur á Rás 2.“

Hvellur fjallar um einstakan atburð í sögunni þegar bændur sprengdu stíflu við Mývatn 1970 og komu í veg fyrir eyðileggingu Laxár og Mývatns. Þetta er í eina skiptið sem notað hefur verið dínamít við náttúruvernd á Íslandi.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan: