The Avengers slær öll aðsóknarmet!

Það á enginn séns í þetta ofurteymi! Og þó svo að Leðurblökumaðurinn eigi hugsanlega séns þá hækkar standardinn endalaust og Joss Whedon (og Marvel-)aðdáendur um allan heim hljóta að vera aumir í löppunum eftir að hafa hoppað svona mikið um af gleði.

Íslendingar fengu að njóta The Avengers heilli viku á undan Bandaríkjamönnum, og á okkar litla landi hefur engin opnun á bíómynd verið jafnsterk. Opnunarhelgin vestanhafs virðist sömuleiðis hafa verið ansi tilkomumikil. Flestir bjuggust svosem við frábærri aðsókn, en fáir bjuggust við svona góðri aðsókn. Á þremur dögum!

Fyrr var það Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 2 ($169,2 milljónir) sem átti stærstu opnunarhelgi allra tíma í bandaríkjunum, og The Dark Knight ($158 millur) þar áður. Hefnendurnir rústuðu þessum tölum og settu glænýtt met. Yfir helgina tóku þeir inn hvorki meira né minna en $200,3 milljónir. Sú tala fer hratt hækkandi, sem þýðir að framleiðendur Disney, aðstandendur Marvel-stúdíósins og Joss Whedon eru allir byrjaðir að fagna með handahlaupum og gleðitárum, svo eitthvað sé nefnt. Myndin er einnig búin að þéna yfir $600 milljónir á heimsvísu. Engin mynd hefur hins vegar nokkurn tímann verið svona fljót að skríða yfir 200 milljón dollara markið.

Smátt og smátt byrjar Blaki að titra örlítið („Performance anxiety“ væri skiljanleg tilfinning hjá Nolan á þessum tíma). Ætli Batman sé farinn að byrja að óttast óttann aftur?

The Avengers klifrar stöðugt hærra og hærra alls staðar í heiminum og er aldrei að vita hvar talan stoppar. Á Íslandi er myndin að fara langt fram úr væntingum í aðsókn, og er enn að seljast upp á kvöldsýningar. Undirritaður hefur heyrt starfsmenn bíóanna tala um að sjá sömu andlitin mæta á myndina oftar en einu sinni.

Hvað ert þú búin/n að sjá hana oft?