Vinsældir þrívíddar minnka í ár segir Fitch

Breska dagblaðið The Guardian segir á vefsíðu sinni í dag að samkvæmt nýrri skýrslu frá Fitch Ratings þá muni áhorfendum á þrívíddarmyndum í bíó fækka á þessu ári, en það yrði fyrsta árið sem fækkun yrði frá því að nýja þrívíddartæknin sló í gegn með frumsýningu Avatar árið 2009.

Frá því að mynd James Cameron, Avatar, sló í gegn með eftirminnilegum hætti þá hafa framleiðendur í síauknum mæli gefið út myndir í þrívídd, og í dag er þetta ekki eingöngu bundið við teiknimyndir eða stórar hasarmyndir. Til dæmis eru myndir eins og The Great Gatsby eftir Baz Luhrmann og Gravity eftir Alfonso Cuarón, væntanlegar í þrívídd.

Þrátt fyrir þetta þá kemst Fitch að því að þessi nýjung sé að byrja að missa flugið. Aðsókn á þrívíddarmyndir í Bandaríkjunum og Kanada hefur staðið í stað í 1,8 milljörðum Bandaríkjadala sl. tvö ár og nú í ár er búist við lækkun á milli ára, þrátt fyrir gott framboð af 3D myndum í sumar og síðar á árinu – nægir þar að nefna Star Trek Into Darkness, Iron Man 3 og Man of Steel.

„Aðsóknin í byrjun naut líklega góðs af hraðri upphaflegri útbreiðslu þrívíddarmynda,“ segir í skýrslunni. „Þrátt fyrir það, þá hefur spennan gagnvart þessu dalað, og neytendum er aftur aðallega umhugað um gæði mynda og þeir vega og meta hvort það sé þess virði að borga meira fyrir að sjá mynd í þrívídd fremur en í tvívídd.“

Tekjur af kvikmyndasýningum á alheimsvísu jukust árið 2012 og náðu methæðum, en tekjurnar námu 34,7 milljörðum Bandaríkjadala. Þrívíddarmyndirnar náðu hinsvegar ekki sömu aukningu. „Það að fara í bíó er ennþá einn ódýrasti kosturinn í afþreyingu,“ segir úttekt Fitch. „En hækkun á bíóverði, sérstaklega á þrívíddarmyndum, gæti breytt þeirri almennu skoðun, til lengri tíma.“