Júragarðurinn 4 í bíó á næsta ári

Þær RISAfréttir voru að berast að gera á fjórðu Jurassic Park myndina, en myndin fjallar um það þegar risaeðlur eru vaktar til lífsins eftir að hafa verið útdauðar í tugmilljónir ára.

Universal kvikmyndafyrirtækið tilkynnti í gær að hafin væri vinna við Jurassic Park 4, eða Júragarðinn 4 eins og myndin kemur líklega til með að heita á íslensku, og myndin kæmi í bíó 13. júní, 2014 í þrívídd.

Sögusagnir hafa verið á kreiki í nokkurn tíma að von væri á endurkomu risaeðlanna. Steven Spielberg mun taka þátt í framleiðslunni en hann leikstýrði fyrstu og annarri myndinni. Í desember heyrðist af því að Mark Protoservich, sem skrifaði I am Legend og The Cell, væri að vinna í handriti að myndinni, en ekkert er staðfest með það ennþá. Ekki er kominn leikstjóri að verkefninu heldur.