Nokkuð fyndin þrívíddarofnotkun

Það er nú varla annað en sanngjarnt að stóner-hóparnir fái líka jólamynd með jákvæðu gildi fyrst að börnin og fjölskyldurnar eiga einhverjar milljónir slíkra mynda. Að vísu er auðveldara fyrir jólamynd að ná klassískum status hjá svona afmörkuðum markhópi heldur en breiðari áhorfendum, og svo ég viti til er listi kannabisdrifinna hátíðarmynda afskaplega stuttur. Jafnvel ef þessi mynd væri ansi léleg þá myndi hún samt eiga langt líf yfir hátíðirnar hjá áhorfendum sínum bara fyrir það eitt að vera grilluð jólasteik (í augnpotandi þrívídd) sem talar tungumál þeirra.

Fyrsta Harold & Kumar myndin fannst mér vera stórskemmtileg og drepfyndin stóner-mynd sem var hlaðin nokkuð snjallri samfélagsgagnrýni. Hana hef ég oft getað horft á en get því miður ekki sagt það sama um myndina sem kom á eftir henni. Escape from Guantanamo Bay var svakaleg vonbrigði; ófyndnari, langdregnari og vantaði hreinlega allt fjörið í hana. Rasistaádeilan þreyttist fyrr og pólitísku skilaboðin ekkert síður. Ef þú ert á sömu skoðun og ég, þá geturðu tekið þeim fréttum fagnandi að þriðja myndin er talsvert betri. Helst samt ekki fagna of mikið vegna þess að hún er langt frá því að vera jafnfyndin og sú fyrsta og aðeins tæplega þess virði að mæla með.

Það sem báðar framhaldsmyndirnar mega samt eiga er að þær gera heiðarlegar og ansi krúttlegar tilraunir til þess að gefa þessum freðnu karakterum hlýjar hjartarætur. Þetta dínamíska dúó er þegar eftirminnilegt (enda er samleikur þeirra John Cho og Kal Penn alveg óborganlegur, nánast sögulegur, sama þótt djókarnir þeirra hitta misoft í mark) og að troða smá sál í grófar grasgamanmyndir eins og þessar sýnir undarleg merki um þroska og metnað. A Very Harold & Kumar 3D Christmas (heldur veikur titill, finnst ykkur ekki?) gerir ýmislegt sem þykir nokkuð óvenjulegt að sjá í jólamyndum og enn er ég að átta mig á því hvort það sé steiktara að sjá uppdópað ungabarn, bannvænt dótavélmenni sem býr til vöfflur eða sitthvort typpið þar sem annað er í leirteiknimynd og hitt frosið við súlu.

En þar sem þetta er Harold & Kumar mynd – og hasshausamynd fyrst og fremst – er svosem lítið óvenjulegt við þetta, og eins skringilega og það hljómar, þá slá drengirnir á býsna hjartnæma strengi líka. Þetta er nú jólamynd eftir allt saman og þess vegna má ekki gleyma vinalega boðskapnum. Myndirnar hafa kannski allar verið misjafnlega fyndnar en engu að síður er ekki leiðinlegt að fylgjast með þessum karakterum þróast og fullorðnast úr drengjum yfir í menn. Og ef maður tekur aðeins burt þá ýktu og kexrugluðu atburði sem eiga sér stað í þessu litla ævintýri, þá má í rauninni sjá að vandamálin hjá þessum persónum eru eðlilegri og mannlegri sem aldrei fyrr. Að mínu mati væri sniðugast að stoppa þessa seríu hér, en eitthvað er rétt svo gefið í skyn að sú fjórða gæti verið á leiðinni.

Þessar myndir reyna allar að gera eitthvað nýtt og ferskt í hverri umferð en satt að segja er erfitt að fá ekki svolitla „deja vu“ tilfinningu eftir þessar þrjár lotur. Það sem gerir þessa mynd miklu skárri en forveri sinn er einfaldlega betri og súrari húmor, en það sem dregur hana töluvert niður er að hún fær mann oftar til að brosa en hlæja. Hún er stundum ruddalega fyndin, en oft er langt á milli þeirra atriða og inn á milli eru ýmsir brandarar frekar ódýrir og þreytandi (aðeins í svona mynd heyrir maður eins árs stelpu segja: „I got the munchies“). Sumt efnið virðist bara heldur ekki vera eins vel nýtt og hefði verið hægt. Það er eins og sum tækifærin bjóði upp á miklu betra grín en við fáum, til dæmis sú hugmynd skjóta óvart jólasveininn niður alblóðugan – og hugsanlega myrða hann. Frábær hugmynd sem fullt hefði verið hægt að gera með í kjölfar atviksins, en í staðinn er þetta bara fljótt afgreitt og næstum því tilgangslaust.

Neil Patrick Harris stelur auðvitað senunum sem hann fær, en hann er sjálfur undarlega nálægt því að vera gagnslaus að þessu sinni, a.m.k. miðað við hinar tvær myndirnar. Tónlistarnúmerið sem hann fær er ágætt en langt frá því að vera eins minnisstætt og það vill vera (mínus Wafflebot-parturinn. Það var yndislega súrt). Allir elska nú NPH, og við vitum öll að hann hefur í sér mun hressari og skemmtilegri tónlistaratriði en þetta. Hefði nú ekki verið skemmtilegra að gefa kappanum bara frumsamið lag í staðinn fyrir þennan graut af klassískum jólalögum?

Einnig er Elias Koteas kynntur til sögunnar sem einn grimmasti mafíósi heims (hann fær m.a.s. kynningu sem er alls ekkert ósvipuð þeirri sem Hugo nokkur Stiglitz fékk), en svo er hann líka bara fljótt afgreiddur og gerir á endanum merkilega lítið. Lokaþriðjungur myndarinnar virðist heldur ekkert gera sér grein fyrir því hversu mikill anti-climax allur endirinn er. Eftir þessa röð af klikkuðum en samt heldur ómerkilegum atburðum í seinni hlutanum gengur myndin hægt og rólega að endastöðinni í stað þess að spretta þangað með smá látum.

Svo komum við okkur að þessari blessuðu þrívídd, eða nánar til tekið þessu „gimmick-i“ sem hún notar, og ef lykilmarkhópur þessarar myndar væri ekki sá sem hann er, þá yrði þetta eitthvað til að setja mikið út á. Myndin setur sér það stolta markmið að pota öllu sem hún getur framan í augað á þér í flestum – ef ekki öllum – senum og spilast það allt út sem partur af einkabrandara sem kemur fram snemma, ásamt mjög áberandi auglýsingu fyrir þrívíddarsjónvarpstæki. Ég hafði svosem alveg húmor fyrir þessu, en ég get ekki ímyndað mér annað en að 2D-útgáfurnar af myndinni verði hrikalega vandræðalegar og pirrandi til áhorfs.

Ég segi það einu sinni enn: Ef þér fannst fyrsta myndin geggjuð en önnur myndin slöpp, þá eru fínar líkur á því að þú takir þessa þokkalega í sátt. Ferskleikinn er nánast alveg horfinn en brandararnir eru margir drepfyndnir. Ræman missir töluvert dampinn í seinni helmingnum en nær rétt svo að bæta það upp með því að sýna persónunum alvöru umhyggju sem smitast hratt á mann sjálfan. Þeir sem eru gallharðir aðdáendur þessara mynda eiga eftir að elska þessa og njóta hennar alla leið, og aðstandendur taka það eflaust nærri sér ef markhópurinn nýtur hennar ekki undir þeim áhrifum sem persónurnar hvetja til.

Hvernig fannst þér A Very Harold & Kumar 3D Christmas?