Ný Stikla: Episode I 3D

Já, það þykir ekki alltaf fréttnæmt þegar 12 ára gamlar kvikmyndir fá nýja stiklu, en þegar umrædd mynd er Star Wars (eða Lion King) þá segjum við frá því. Eins og flestir vita eru Star Wars myndirnar væntanlegar í bíó aftur, og nú í þrívídd. Star Wars: Episode 1 – The Phantom Menace ríður á vaðið í febrúar 2012, og svo er planið að þær komi út ein á ári þangað til í febrúar 2018 þegar að Return of the Jedi myndi koma út. En ef að Episode 1 gengur illa getur þetta allt breyst.

En að trailernum. Líkt og plaggatið sem gefið var út fyrir stuttu, leggur stiklan mikla áherslu á það sem fólk almennt elskar við myndina (Darth Maul vs. Jedi gæjar – geimbardagar) og litla sem enga á hlutina sem ekki voru eins dáðir af aðdáendum (JarJar Binks). Þó sést Anakin allavega, ólíkt nýja plaggatinu.

Þó að Episode I sé, eins og Tommi bendir á, „einhver stærstu vonbrigði mannkynssögunnar“ þá má samt ekki vanmeta mátt seríunnar. Mér þykir ennþá pínulítið vænt um þessa mynd, og þó að ég muni alltaf eftir hversu vond hún er á köflum þegar ég horfi á hana, þá fær þessi trailer mig til að langa að sjá hana aftur. Darth Maul er svalur, Qui Gon Jin er flottasti Jedi-inn í allri seríunni – hvorugan þeirra er að finna annarsstaðar en í Episode I. Ég mæti allavega í febrúar, með litla frænda upp á arminn og fer að sjá Star Wars í bíó. Og ég tek fram að það hefur lítið sem ekkert með þrívíddina að gera – líkt og með The Lion King langar mig bara að sjá myndina aftur í bíó.

Og ég stend við þá fullyrðingu að mér finnst Episode II vera lélegasta Star Wars myndin. Röðin er svona: Episode IV, Episode V, Episode VI, Episode III, Episode I, Episose II. Eru margir ósammála mér? Hér er allavega stiklan: