Harrison Ford verður Wyatt Earp

Harrison Ford, annar aðalleikara myndarinnar Cowboys and Aliens sem væntanleg er í bíóhús í ágúst nk. , hefur verið ráðinn til að leika hinn sögufræga lögreglustjóra Wyatt Erp í mynd sem gera á eftir bókinni Black Hats, að því er Heat Vision greinir frá.
Myndin verður eins og fyrr sagði byggð á bók Max Allan Collins, Black Hat, en framleiðendur verður hinir sömu og gerðu myndina Thunder Road; Basil Iwanyk og Jason Netter hjá Kickstart Productions.

Kurt Johnstad, sem var annar handritshöfunda bardagamyndarinnar 300, sem er einnig að skrifa í félagi við aðra framhald þeirrar myndar, 300: The Battle of Artemisia, hefur verið ráðinn til að skrifa handrit kúrekamyndarinnar.
Á bókarkápu segir þetta um bókina: „Frábær, spennutryllir sem endurbirtir spennandi og hættulega tíma í bandarískri sögu, og færir saman tvo sögufræga menn úr glæpasögunni.“
Sagan er eitthvað á þessa leið; Bannáratímabilið er nýhafið í Bandaríkjunum, villta vestrið er að líða undir lok, og Wyatt Earp er að reyna að láta enda ná saman sem leynilögreglumaður í Los Angeles. Earp ákveður að fara austur á bóginn til að hjálpa syni hins þekkta bófa Doc Holliday, en í New York hittir hann fyrir fyrrum aðstoðarlögreglustjóra sinn, Bat Masterson, sem hefur getið sér þar gott orð sem íþróttafréttamaður.
Wyatt og Masterson þurfa að takast á við nýja tegund illmenna – mafíósa sem leiddir eru af hinum kaldrifjaða unga glæpaforingja Al Capone.