Sony heltekur Resident Evil stikluna

Urðu snjallsímar okkur að falli, eða er þetta ein stór auglýsing? Að sjá leynda markaðsetningar í kvikmyndum fyrir ýmsar matvörur, raftæki og vörumerki er ekkert nýtt fyrir okkur- Það er hinsvegar sérkennilegt þegar þriðjungur af stiklu er raftækjaauglýsing, þá eru menn farnir að gera sig of stóra í markaðsdeildinni.

Resident Evil-serían hefur halað inn fúlgur fjár og sú síðasta þénaði 296 milljónir dollara á heimsvísu, en ég viðurkenni að sú mynd var lúmskt skemmtileg og þrívíddin heiladautt krem á kökuna. En miðað við hagnað síðustu myndar verður maður að spyrja sig hvort nýja framhaldið, Resident Evil: Retribution, hafi átt í erfiðleikum með að halda fjármögnurunum á mottunni:

Stiklan hefst eins og auglýsingarherferð fyrir hinar ýmsu vörur og þróast loks í raunverulega stiklu þar sem við fáum að sjá að Resident Evil serían hefur svo sannarlega stigið á hærra plan: Stærri sviðsetningar, meiri og stærri tæknibrellur, flottir búningar og nóg af spennandi vopnnum. Þetta verður auðvitað jafn tóm skemmtun og allar hinar myndirnar en allir hafa sínar „guilty-pleasure“-myndir.

Það er enn og aftur Paul W.S. Anderson (sem færði okkur myndina sem Tommi sundurtætti í Skemtilegur Sori #1) sem tekur að sér verkefnið og eiginkona hans og þokkadísin, Milla Jovovich, sem endurtekur hlutverk sitt sem hasargellan Alice. En þau Sienna Guillory og Michelle Rodriguez snúa einnig aftur- sú síðarnefnda hefur ekki sést í seríunni í tíu ár.

Hvernig leggst þessi „lúmska“ markaðssetning hjá Sony í ykkur, og eru einhverjir spenntir yfir nýrri Resident Evil ræmu?