Systkini á nornaveiðum vinsælust á Íslandi

Systkinin Hans og Gréta í myndinni Hansel & Gretel – Witch Hunters skjótast beint á topp íslenska bíóaðsóknarlistans sem kom út í dag, ný á lista.

Listinn mælir aðsókn yfir helgina síðustu, frá föstudegi fram á sunnudag.

Myndin fjallar um þau systkinin Hans og Grétu sem þegar þau voru börn, sneru á illu nornina og komu henni fyrir kattarnef, eins og frægt er orðið. Síðan þá hafa þau gert það að ævistarfi sínu að elta uppi nornir og kála þeim.

Eftir að systkinin Hans og Gréta voru skilin eftir í skóginum á sínum tíma römbuðu þau á hús eitt sem reyndist í eigu illrar nornar. Hún lokaði krakkana inni í búri og ef ekki hefði komið til snjallræði Hans og snögg viðbrögð Grétu hefði vart þurft að spyrja að leikslokum. Eftir þessa lífsreynslu uxu þau Hans og Gréta úr grasi reynslunni ríkari og ásettu sér að héðan í frá skyldu þau berjast gegn nornum og kála þeim hvar sem þær væri að finna svo þær gætu ekki lengur framið illvirki eins og að ræna fleiri börnum og éta þau. Hingað til hafa þau systkinin náð góðum árangri í nornaherferð sinni enda vel vopnum búin. Dag einn heyra þau af litlu þorpi sem hefur verið umsetið af norn eða nornum sem numið hafa fimm krakka á brott. Þau ákveða þegar að grípa til sinna ráða en komast þá að því að hér er ekki allt sem sýnist …

Í öðru sæti á listanum, niður um eitt sæti er Django Unchained eftir Quentin Tarantino, en hann fékk BAFTA verðlaunin fyrir bresta frumsamda handritið í gær þegar verðlaunin voru veitt í Bretlandi. Cristoph Waltz fékk einnig verðlaun fyrir leik sinn í myndinni.

Í þriðja sæti er hasarmyndin Parker með Jason Statham og Jennifer Lopez í helstu hlutverkum, en myndin fer niður um eitt sæti á milli vikna.

Í fjórða sæti, ný á lista, er hin stórgóða Zero Dark Thirty, um leitina og drápið á Osama Bin Laden. Í fimmta sæti, niður um tvö sæti, er svo Arnold Schwarzenegger í nýjustu mynd sinni The Last Stand.

Sjáið lista 23 vinsælustu myndanna á Íslandi í heild sinni hér að neðan: