Stjörnum prýdd sjálfsmorðssveit

Will Smith, Tom Hardy, Margot Robbie, Jai Courtney og Jared Leto eru meðal þeirra sem munu fara með aðalhlutverk í kvikmyndinni Sjálfsmorðssveitin (e. Suicide Squad). Þetta var kynnt af framleiðslufyrirtækinu Warner Bros í gær.

Suicide Squad er byggð á samnefndri teiknimyndasögu frá DC- Comics þar sem mestu illmennin fá tækifæri á frelsi gegn því að taka að sér verkefni sem verður að öllum líkindum þeirra síðasta.

will_smith_margot_robbie_jared_leto_

Flestir leikararnir hafa verið kynntir áður, en Warner Bros tók fram að þessu sinni hverjir munu fara með hvaða hlutverk í myndinni.

Jared Leto mun fara með hlutverk Jókersins. Will Smith mun fara með hlutverk „Deadshot“, sem er einnig óvinur Leðurblökumannsins. Margot Robbie fer með hlutverk Harley Quinn, sem er kærasta Jókersins og einn helsti aðstoðarmaður hans. Courtney mun svo leika illmennið „Boomerang“.

Myndinni verður leikstýrt af David Ayer, sem hefur getið sér gott orð fyrir skriðdrekamyndina Fury.