Spider-Man staðfestur í Avengers: Infinity War

Nýi Köngulóarmaðurinn Tom Holland hefur staðfest að hann muni leika Spider-Man í Marvel-ofurhetjumyndinni Avengers: Infinity War sem frumsýnd verður á næsta ári. Þar með hefur hann leikið ofurhetjuna rauðbláu í þremur myndum á þremur árum.

spider-man

Kvikmyndafyrirtækið Marvel Studios hefur enn ekki gefið út opinberan lista yfir leikara í myndinni, en vonast er til að listinn verði birtur áður en tökur hefjast síðar á þessu ári.

Holland staðfesti leik sinn í myndinni í samtali við ítalska útgáfu tískutímaritsins Vogue, en það var ítölsk aðdáendasíða leikarnas sem kom auga á ummæli Holland og snaraði þeim yfir á ensku.

Holland segir: „Framleiðendur vildu vera vissir um að ég væri rétti leikarinn í hlutverkið áður en þeir réðu mig í þrjár myndir á næstu fjórum árum, þar á meðal Avengers: Infinity War.“

Holland lék Spider-Man fyrst í Captain America: Civil War frá síðasta ári, og leikur í Spider-Man: Homecoming, sem frumsýnd verður síðar á þessu ári, en það er fyrsta mynd hans þar sem Spider-Man er aðalpersónan.

Fjöldi annarra Marvel leikara hefur staðfest þátttöku í Avengers: Inifinty War. Vin Diesel staðfesti að Guardians of the Galaxy muni koma við sögu, leikstjórarnir Joe og Anthony Russo staðfestu Chris Hemsworth sem Thor og Jeremy Renner hefur staðfest að hann snúi aftur sem Hawkeye.

Miklar líkur eru á að Chris Evans og Robert Downey Jr. leiki persónur sínar, Captain America og Iron Man, og Scarlett Johansson er líkleg í hlutverki Black Widow. Þá má búast við Black Panther í túlkun Chadwick Boseman, Doctor Strange í túlkun Benedict Cumberbatch, Ant-Man í túlkun Paul Rudd og Captain Marvel í túlkun Brie Larson.  Ef Captain Marvel sést í myndinni, þá yrði það í fyrsta skipti sem hún kemur fram í Marvel mynd, en von er á sérstakri mynd síðar um þessa persónu.

Í Infinity War þá mun Titan Thanos, sem Josh Brolin leikur, safna hinum svokölluðu Infinity Stones saman, til að ná völdum yfir öllu sólkerfinu.