Sjáðu Batman prufu Christian Bale

batman-begins-wallpapers_15073_1024x768Líklega hefur Ben Affleck ekki þurft að leika í sérstakri áheyrnarprufu áður en hann fékk hlutverk Batman, verandi jafn mikil stjarna og hann er, fyrir myndina Batman vs. Superman, sem væntanleg er. Það sama er ekki hægt að segja um Christian Bale, en hann þurfti að leika í áheyrnarprufum til að næla í hlutverk Batman í Batman í Begins, í leikstjórn Christopher Nolan, en Bale lék síðan Batman í öllum þremur Batman myndum Christopher Nolan.

Á morgun, þriðjudag, kemur út í Bandaríkjunum mynddiskapakkinn “The Dark Knight Trilogy: the Ultimate Edition,” en á honum eru nokkur bak-við-tjöldin atriði, þar á meðal áheyrnarprufa Christian Bale sem varð til þess að hann var valinn í hlutverk Batman.

Sjáðu klippuna hér fyrir neðan og hlustaðu á Christopher Nolan útskýra hverju hann leitaði eftir í prufunum:

Það er áhugavert að sjá að búningurinn sem Bale er klæddur í er sá sami og Val Kilmer var í í Batman Forever, og einnig er áhugavert að Amy Adams sést leika hlutverk Rachel Dawe í prufunni. Í Batman Begins fékk Katie Holmes það hlutverk að lokum, og Maggie Gyllenhaal lék það í The Dark Knight Rises. 

Adams var á þessum tíma ekki orðin eins þekkt og hún er í dag, og stærsta hlutverk hennar fyrir þessa prufu var lítið hlutverk í Catch Me if You Can.

Adams mun að öllum líkindum mæta aftur til leiks í Man of Steel 2, eða Batman vs. Superman, í hlutverki unnustu Superman, Lois Lane.