Simon Pegg hræddur við allt

simonpeggBreska leikarann Simon Pegg, ættu flestir að þekkja úr myndum eins og Hot Fuzz, Run Fatboy Run og Mission Impossible myndunum, en lengi væri hægt að rekja myndir þar sem hann kemur við sögu. Pegg lauk einnig nýlega við þríleik sinn og Nick Frost. Lokahnykkurinn í þríleiknum var The World’s End, en hinar eru Hot Fuzz og Shaun of the Dead.

Ný bandarísk stikla er komin fyrir myndina hans, A Fantastic Fear of Everything, og þó að hún hafi verið sýnd fyrir rúmu ári síðan í heimalandinu þá er hún fyrst núna að skríða út fyrir landssteinanna. Í myndinni á Pegg í stríði við sína eigin hræðslu. Kvikmyndin fjallar um barna-rithöfundinn Jack, sem reynir að búa til glæpasögu fyrir fullorðna. Heimildarvinnan fyrir nýju bókina virðist erfið, því Jack er gífurlega hræddur maður og setur sig heldur mikið í spor fórnarlambs morðingjans í sögunni.