Shaggy tekinn í gíslingu

Gamanleikarinn Adam Devine fer með aðalhlutverkið í myndinni Game Over, Man! sem verður frumsýnd á streymiveitunni Netflix þann 23. mars næstkomandi. Með önnur helstu hlutverk í myndinni fara Blake Anderson og Anders Holm.

Leikararnir þrír léku saman um árabil í þáttunum Workaholics sem sýndir voru á Comedy Central. Leikstjóri myndarinnar, Kyle Newacheck, skrifaði og leikstýrði einnig megnið af þáttunum. Aðdáendur þáttanna geta því átt von á því að myndin muni kitla hláturtaugarnar.

Ný stikla úr myndinni var opinberuð fyrir skömmu. Í henni fáum við að fylgjast með tríóinu bregðast við gíslatöku á hóteli þar sem þeir vinna sem þjónar. Meðal þeirra sem hafa verið teknir í gíslingu er rapparinn Shaggy, sem er hvað þekktastur fyrir lagið „It Wasn’t Me“ sem gerði allt vitlaust um aldamótin síðustu.

Stikluna má sjá í spilaranum hér að neðan.